Leikfélag Mosfellsveitar frumsýndi fjögurra þátta leikdagskrá í Bæjarleikhúsinu föstudaginn 11. nóvember. Þættirnir voru eftir tvo meðlimi félagsins þá Pétur R. Pétursson og Lárus J. Jónsson og leikstýrt af þremur innanfélagsmönnum. Leikfélagið hefur ekki lagt það í vana sinn að spreyta sig á styttri þáttum og það er vel til fundið að gefa félagsmönnum tækifæri til að reyna sig á þennan hátt.

hopur.jpgLeikfélag Mosfellsveitar frumsýndi fjögurra þátta leikdagskrá í Bæjarleikhúsinu föstudaginn 11. nóvember. Þættirnir voru eftir tvo meðlimi félagsins þá Pétur R. Pétursson og Lárus J. Jónsson og leikstýrt af þremur innanfélagsmönnum. Leikfélagið hefur ekki lagt það í vana sinn að spreyta sig á styttri þáttum og það er vel til fundið að gefa félagsmönnum tækifæri til að reyna sig á þennan hátt.

Fyrst á dagskrá var leikþátturinn Húð og hitt eftir Pétur R. Pétursson sem ég hafði séð áður í flutningi félagsins á stuttverkahátíðinni Margt smátt í Borgarleikhúsinu. Þátturinn sem er í leikstjórn Ólafar Þórðardóttur gengur út á að persónurnar tala ekki heldur heyrast hugsanir þeirra í hátalarakerfi. Uppsetningin í Borgarleikhúsinu náði ekki að hrífa mig þar sem lítt hafði verið unnið með samleik leikara við og með hugsunum sínum. Að þessu sinni var meira gert í því skyni og af og til náðust upp vel heppnuð kómísk augnablik. Þó hefði verið hægt að vinna aðeins betur með þennan þátt.

Annar leikþátturinn var Það verður að stoppa þennan mann eftir Lárus H. Jónsson í leikstjórn Ólafs Haraldssonar. Þátturinn er afar „næf“ ádeila á íslenska stjórnmálamenn sem leika sér í sínum barnaleikjum af barnslegri eigingirni án tillits annarra. Ádeilan var full einföld á köflum en þó mátti hafa gaman af ýmsu sem gerðist. Stefán Bjarnarson og Birgir Haraldsson áttu skemmtilega spretti í sínum hlutverkum. Þáttinn mætti styrkja með því að stytta og fá meiri snerpu í hann.

Seinni þáttur Lárusar var Einn dag í einu í leikstjórn Hörpu Svavarsdóttur. Þátturinn er afar persónuleg smíð af hendi höfundar og eflaust mun sterkari fyrir þá sem þekkja hann. Leikurinn var ögn skrykkjóttur á köflum og hefði þurft aðeins betra flæði í hann. Að hluta til var um að kenna fullmiklum endurtekningum í handriti en leikstjóri hefði einnig mátt leggja meiri áherslu á þann þátt.

Lokaþátturinn var eintalið Það er frítt að tala í GSM hjá Guði eftir Pétur R. Pétursson í leikstjórn Ólafs Haraldssonar. Þessi þáttur  var óumdeilanlega hápunktur dagskrárinnar og var þar fyrst og fremst að þakka brilljant frammistöðu Jóels Sæmundssonar í hlutverki sínu. Það er ekki á allra færi að flytja eintal en Jóel náði að hrífa salinn með sér með afar sannfærandi og trúverðugum leik. Skemmtilega skrifaður þáttur og vel sviðsettur. Virkilega vel gert.

Ekki er hægt að ljúka þessari umsögn án þess að minnast á skiptingarnar á milli atriða sem í raun voru fimmti leikþátturinn gott ef ekki  fimmta herdeildin. Harpa Svavarsdottir og Pétur R. Pétursson sem tveir misjafnlega metnaðarfullir og ekki alltof skýrir sviðsmenn mynduðu afslappaðan og skemmtilegan ramma utan um dagskrána. Afskaplega frumleg og vel útfærð hugmynd sem gerði mikið fyrir heildaráhrif dagskrárinnar. Þetta var skemmtileg kvöldstund með þeim Mosfellingum.

Hörður Sigurðarson