Leikverkið Elska – ástarsögur Norðlendinga var sýnt við góðan orðstír í Hömrum í Hofi síðastliðinn nóvember. Eftir fjölda áskorana hefur verið ákveðið að sýna það aftur laugardaginn 18. mars, og að þessu sinni í Samkomuhúsinu.

Elska segir okkur sögu fimm para sem eru í raun og veru til og búa víðsvegar um norðausturlandið. Þau eru á mismunandi aldri, hafa mismunandi lífsskoðanir og mismunandi áhugamál. Eitt eiga þau þó sameiginlegt og þau eru öll í farsælum ástarsamböndum.

Verkið er unnið orðrétt upp úr viðtölum sem tekin voru við pörin, en leikhópurinn safnaði saman raunverulegum ástarsögum til að nota sem efnivið fyrir verkið. Því er þetta hreinræktuð heimildarsýning sprottin upp úr okkar umhverfi á norðurhjara veraldar. Sögurnar gætu verið komnar frá nágrönnum þínum, frænkum, frændum, mömmu, pabba, ömmu, afa eða systkinum. Það er því aldrei að vita nema þú kannist við einhverjar af sögunum sem birtast á sviðinu.

Sýningin fékk mjög góðar viðtökur frá áhorfendum í nóvember sem margir hverjir ferðuðust langar vegalengdir til að sjá sýninguna. Því var ákveðið að sýna allavega eina aukasýningu svo að fleiri fengju að njóta.

Leikarar sýningarinnar, Jóhann Axel Ingólfsson og Jenný Lára Arnórsdóttir, eru bæði menntaðir leikarar sem eru nú búsett á Akureyri. Þau unnu einnig handritið, ásamt leikstjóranum Agnesi Wild. Því er þetta kjörið tækifæri til að kynnast listamönnum framtíðarinnar.

Frekari upplýsingar má nálgast á fésbókarsíðu hópsins – https://www.facebook.com/artiktheatergroup/

 

Einungis er um þessa einu aukasýningu að ræða og því er um að gera að festa kaup á miðum sem fyrst á www.mak.is og svala forvitninni þann 18. mars næstkomandi.

Leiksýningin er klukkustundar löng og er sýnd án hlés.

Handrit: Jenný Lára Arnórsdóttir, Jóhann Axel Ingólfsson og Agnes Wild

Leikstjórn: Agnes Wild

Leikararar: Jenný Lára Arnórsdóttir & Jóhann Axel Ingólfsson

Tónlist: Jóhann Axel Ingólfsson

Leikmynd og búningar: Eva Björg Harðardóttir

Aðstoð við dans og hreyfingar: Katrín Mist Haraldsdóttir

Ljósmyndir: Daníel Starrason

Grafísk hönnun: Vaiva Straukaite

Tæknikeyrsla: Jóhann Pétur Aðalsteinsson

  • Skemmtileg staðreynd

Skemmtilegt er að segja frá því að fljótlega eftir að æfingar hófust síðasta haust komust báðir leikarar sýningarinnar að því að þau væru að verða foreldrar. Jóhann með unnustu sinni Katrínu Mist Haraldsdóttur og Jenný Lára með unnusta sínum Birni Grétari Baldurssyni. Þó að flestir haldi því leyndu til að byrja með gátu leikararnir ekki leynt því fyrir hvoru öðru þar sem að þau mættust á biðstofunni í fyrsta sónar uppi á fæðingardeild. Bæði börnin hafa fengið settan dag í byrjun júní og má því segja að ástin hafi svifið yfir vötnum í byrjun æfinga á Elsku.