Freyvangsleikhúsið: Góðverkin kalla eftir Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason
Leikstjórar: Margrét Sverrisdóttir og Oddur Bjarni Þorkelsson

Síðastliðið föstudagskvöld brá svo við að þrjár dömur brugðu sér í Freyvang til að njóta frumsýningar á verkinu á gamanleiknum Góðverkin kalla eftir þá Ljótu hálfvita Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason í leikstjórn Margrétar Sverrisdóttur og Odds Bjarna Þorkelssonar.

Það er alltaf dálítið sérstök og einhvernveginn áþreifanleg stemmning á frumsýningum Freyvangsleikhússins. Margir frumsýningargestir eiga vini og fjölskyldu á sviðinu og bíða í ofvæni eftir að sjá og heyra hvernig til tekst og uppskera með leikhópnum afrakstur margra vikna undibúnings- og æfingartarnar enda leikfélagið löngu orðin mikilvægur hluti af félagslífinu í Eyjafjarðarsveit en er á sama tíma opið utansveitarfólki og hugsanlega er það ástæða þess að vel gengur að halda ferskleika og metnaði.

Verkið Góðverkin kalla er ekki nýtt af nálinni en það var samið fyrir Leikfélag Akureyrar fyrir rúmum 20 árum og hefur notið mikilla vinsælda meðal áhugaleikhópa og verið sýnt víða. Verkið er alveg bráðfyndið og að einhverju leiti ádeila á persónulega samkeppni metnaðarfullra íbúa í smáum samfélögum. Kannski jafnvel frekar góðlátlegt grín en bein ádeila. Verkið ber þess augljós merki að vera komið til ára sinna og hefur jafnvel á sínum tíma ekki verið sérstaklega nútímalegt. Persónurnar eru sniðnar eftir staðalímyndum kynjanna frá miðri síðustu öld og stemmningin í verkinu eftir því en það er þó bráðfyndið og orðaleikirnir alveg óborganlegir en söguþráðurinn segir frá lífinu á Gjaldeyri við Ystunöf þar sem hver íbúi hefur sín sérkenni.

Persónur og leikarar í verkinu eru á öllum aldri sem gefur mikla breidd í uppsetninguna og tækifæri til að blanda saman reyndum og óreyndum. 13 manns leika í sýningunni en að uppsetningunni koma um 30. Það er alveg með ólíkindum hversu vel hver og einn skilar sínu á sviðinu og hver persóna er minnisstæð. Veikleikinn er textaframsaga en hún var oft heldur stirð og góðir brandarar liðu fyrir það en á móti kemur að hver og einn leikari skilaði sinni persónusköpun alveg ljómandi vel í gegnum líkamstjáningu, þar báru þó af Sólveig Gærdbo Smáradóttir, Úlfhildur Örnólfsdóttir og Daði Freyr Þorgeirsson.

Tónlistin kryddaði sýninguna og var vel viðeigandi, ekki síst lagið um Straumlínugjafann sem einfaldlega límist á heilann eftir sýninguna.

Sýningin er stórkostlega skrifaður og ljómandi vel fram borinn farsi sem kitlar hláturtaugarnar með frábærum orðaleikjum.

Sóley Björk Stefánsdóttir