Vegna fjölda áskorana verður ævintýraóperan Baldursbrá sýnd á þremur aukasýningum í Norðurljósasal Hörpu dagana 20.-22. maí nk. Óperan er eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson og fékk mikið lof þegar hún var frumsýnd.
Aukasýningarnar verða sem hér segir:
Föstudaginn 20. maí 2016 kl. 19.00
Laugardaginn 21. maí 2016 kl. 14.00
Sunnudaginn 22. maí 2016 kl. 14.00
Óperan lýsir ævintýralegu ferðalagi Baldursbrár um heiðar Íslands svo hún megi njóta sólarlagsins ofan af fjallstindi. Við sögu koma glaðbeittur Spói, illvígur Hrútur, slóttugur Rebbi og yrðlingar hans. Söngvarar eru Fjóla Nikulásdóttir í hlutverki Baldursbrár, Eyjólfur Eyjólfsson sem Spói, Davíð Ólafsson er Hrúturinn, Jón Svavar Jósefsson syngur Rebba og 11 börn á aldrinum 7-17 ára eru í hlutverkum yrðlinga. Leikstjóri er Sveinn Einarsson. Sýningin hentar börnum á aldrinum þriggja til tólf ára.
Sýningin var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2014 og er samvinnuverkefni Litla óperukompanísins, Íslensku óperunnar og Hörpu.
Baldursbrá var sýnd fyrir fullu húsi sumarið 2014 og haustið 2015.