Leiksýningin Kassinn er sérstök að því leiti að hún fer fram í sýndarveruleika, og er fyrsta sýndarveruleikhússýning Íslands. Íslensk/breski listhópurinn Huldufugl framleiðir verkið, sem er 20 mínútur að lengd og einungis fyrir einn áhorfanda í einu.

Sýningin varð hlutskörpust af tugum sýninga á tölvuleikjahátíðinni A Maze sem fram fór í Berlín nú á dögunum, og hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar sem nefnast „Most Amazing Game Award“. A Maze er vel þekkt hátíð innan tölvuleikjaheimsins, og hefur verið starfandi í 8 ár. Ásamt verðlaunagrip fékk Huldufugl peningaverðlaun að andvirði 3000 Evra.

Kassinn fór fyrst fram utandyra við Hlemm á Menningarnótt 2017, en hefur síðan þróast og var sýnd í annað sinn á Reykjavík Fringe Festival í fyrra, og þá fór boltinn fyrst að rúlla. Hátíðarstjórnendur frá Stokkhólmi buðu Huldufugli á Stockholm Fringe, þar sem Kassinn vann til nýsköpunarverðlauna og var sýningin tilnefnd til Grand Prix verðlauna hátíðarinnar. Í framhaldi af því var aðstandendum verksins boðið á fjöldann allan af hátíðum, og hefur Kassinn verið valin sem ein af 3 íslenskum sýningum sem taka þátt í Nordic Season á Brighton Fringe nú í maí, en Brighton Fringe er stærsta listahátíð Englands. Hinar sýningarnar sem ferðast til Brighton frá Íslandi í maí eru uppistandssýning Jonathan Duffy og kabarett sýning Dömur og herra.
Huldufugli var einnig boðið að sýna Kassann á San Diego Fringe sem fer fram í júní, og hlaut ferðastyrk frá Félagi Íslenskra Leikara til þess. Viðræður eru svo í gangi við gallerí í Los Angeles um uppsetningu á verkinu þar samhliða hátíðinni í San Diego.

Stofnendur Huldufugls eru leikkonan og framleiðandinn Nanna Gunnars og Owen Hindley sem er listrænn forritari. Owen hannaði sýndarveruleikaheim verksins en Nanna skrifaði upprunalegt handrit verksins. Handritið var svo þróað með hjálp rithöfundarins Alexander Dan, sem hefur skapað sér gott orð fyrir að skrifa vísindaskáldskaps fantasíur. Nanna og leikarinn Ástþór Ágústsson skipta með sér leiknum hlutverkum verksins, og tónlistarhöfundurinn Íris Thorarins skapaði tónlistarheim verksins.
Þó um sé að ræða leiksýningu, þar sem leikari fer með hlutverk í rauntíma innan sýndarveruleika, þá er erfitt að greina mörkin milli leikhúss og tölvuleiks. Dómnefnd A Maze Festival hafði þetta að segja um verkið:

„In most games with actors, they are noticed in cutscenes. Kassinn takes a very different approach and takes out the code for NPCs. It doesn’t feel like talking to a machine because you are not. In adding actors to a singleplayer VR environment, Huldufugl transformed their work into a new kind of multiplayer that we could only describe as live theater gaming.“ (Fengið af síðu 80 Level)

Huldufugl er nú að undirbúa heimsferðalag með sýninguna, en hún verður sýnd í Brighton, London, San Diego og Los Angeles á komandi mánuðum og stefnir á frekara ferðalag á komandi ári. Einnig er hópurinn að vinna að nýju leikhúsverki í samstarfi við breskan sirkúshóp sem heitir Hikapee, og stefnt er að frumsýningu á næsta ári.
Íslenskir áhorfendur geta svo nælt sér í miða á Kassann á Reykjavík Fringe hátíðinni sem fer fram fyrstu vikuna í júlí.

Frekari upplýsingar um hópinn má finna á heimasíðu þeirra og samfélagsmiðlum.
huldufugl.is
facebook.com/huldufugl
instagram.com/huldufugl