Leikfélagið Sýnir starfar á landsvísu og gerir því gjarnan stykki sín á sumrin. Síðasta vetur efndi félagið til örleikritasamkeppni á meðal félagsmanna. Afraksturinn var síðan settur upp og sýndur víða um land í framhaldinu.
Fyrst ber að lofa framtakið. Skortur á ungum leikskáldum hefur nokkuð verið í umræðunni undanfarið og ljóst er að ætli menn að skrifa fyrir leiksvið er nauðsynlegt að fá tækifæri til að prófa sig áfram og sjá verk sín lifna á sviði. Samkeppni þar sem um styttri þætti er að ræða verður að teljast glæsilegt framtak og öðrum til eftibreytni. Einnig var leikstjórum innan félagsins gefinn kostur á að spreyta sig, en svoleiðis tækifæri liggja heldur ekki á lausu á Íslandi í dag. Lokasýning var í tankasárunum í Öskjuhlíðinni, en þau mynda mjög skemmtilegt leikrými. Fjögurra manna hljómsveit stóð uppi á vegg og lék stef á milli þátta sem gaf mjög skemmtilega stemmingu, auk þess sem hún gaf stundum mjög skilmerkilega til kynna að þættinum væri lokið, svona þegar áhorfendur voru ekki vissir. Verkin sem valin voru til sýningar voru sjö og mjög ólík í innihaldi og uppsetningu. Það er því fráleitt annað en að taka þau fyrir hvert fyrir sig.
1. Upphafið e. Guðjón Þ. Pálmarsson. Leikstjórn: Birgir Sigurðsson. Leikarar: Hrund Ólafsdóttir, Huld Óskarsdóttir og Lárus Vilhjálmsson. Hnyttin ádeila á fólk sem talar í gsm síma á leiksýningum. Þetta var skemmtileg byrjun á sýningunni og ágætlega unnin í alla staði. Huld Óskarsdóttir var t.d. svo sannfærandi sem óþolandi áhorfandinn með símann, að einhverjir sussuðu á hana til að byrja með og voru ekkert að fatta að hún væri hluti af sýningunni.
2. . Yfir e. Hrund Ólafsdóttur. Leikstjórn: Sú sama. Leikari: Jóhann Hauksson. Þreyttur maður þarf að komast yfir einhvern hjalla til þess að allt verið gott. Að baki þessu lá eflaust djúp pæling um streðið í nútímasamfélagi og drauminn um að komast á lygnan sjó. Gallinn var hins vegar sá að eftir svosem mínútu hætti hún að vera áhugaverð. Þá voru menn búnir að ná þessu og farnir að verða ósjálfrátt þreyttir á því að horfa á þennan þreytta mann komast ekki yfir eitt eða neitt. Það sem bjargaði því sem bjargað varð af þessum þætti var frammistaða Jóhanns Haussonar sem var með eindæmum frábær, svonan miðað við það sem hann hafði úr að spila. Þegar hér var komið sögu var áhorfendaskarinn látinn færa sig á milli hólfa. Þetta tók óratíma þar sem hálfgert einstigi er þarna á milli. Fleiri tilfærslur áttu víst að vera, en þeim var sem betur fór sleppt þar sem tíminn sem fór í þetta var allt of mikill. Tilgangurinn með þessu brölti var líka óskiljanlegur þar sem ekki varð annað séð en að hólfin væru nánast alveg eins og vel hefði getað farið um alla þætti í sama hólfi
3. Uppistand e. Odd Bjarna Þorkelsson. Leikstjórn: Lárus Vilhjálmsson. Leikarar: Guðmundur L. Þorvaldsson, Halla Rún Tryggvadóttir og Guðjón Óskarsson. Skælandi trúður lendir í illgjarnri álfaprinsessu sem klagar hann, að ástæðulausu, fyrir barnaklám. Þátturinn var svo sem ágætlega unninn, sérstaklega var Guðmundur góður í hlutverki trúðsins seinheppna, en ég var ekki að ná „pointinu“. Ég vona allavega að það hafi ekki verið að að trúðar sem eiga bágt og gráta séu hlægilegir, vegna þess að það er nú bara of lélegt til að ég vilji vita það. Þetta var undarlegur þáttur.
4. Hnerri e. Frosta Friðriksson. Leikstjórn: Gunnar B. Guðmundsson. Leikarar: Halldór Magnússon og Garðar Borgþórsson. Tveir menn sitja á bekk og fikta í nefjum sér með tannstönglum þar til þeir hnerra, og fá mikið út úr því. GARGANDI SNILLD! Fjallað er um undarlegheitin eins og fíkn sem þeir félagar eru farnir að fela fyrir öðrum. Það er skemmst frá því að segja að þetta gekk fullkomlega upp. Fíknin og perraskapurinn varð ofboðslega fyndin í þessum skrítna búningi og leikarar voru mjög skemmtilega „hnerralegir“ í hlutverkum sínum.
5. Latex Drottningin e. Ármann Guðmundsson. Leikstjórn: Sá sami. Leikarar: Gunnhildur Sigurðardóttir og Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson. Kona tjáir skilningsríkum eiginmanni sínum að hún hafi fengið vinnu sem klámmyndastjarna. Fínn brandari, hefði samt eiginlega mátt vera lengri. Leikararnir voru mjög sannfærandi. Þessi þáttur leið samt nokkuð fyrir það að vera leikinn úti.
6. Sjálfstæðir leikarar e. Hannes Örn Blandon. Leikstjórn: Örn Alexandersson. Leikari: Helgi Róbert Þórisson. Þáttur sem gerist á lokaæfingu hjá áhugaleikfélagi í sveit. Að mörgu leyti ágætis þáttur. Þarna kemur hins vegar leikstjórinn með þá eitursnjöllu hugmynd að láta sama leikarann leika öll hlutverkin. Helgi Róbert Þórisson gerði þetta af stakri snilld. Þarna fer leikari sem augljóslega á framtíðina fyrir sér. Þessi þáttur svínvirkaði.
7. Látum vel að hvort öðru e. Guðjón Þ. Pálmarsson. Leikstjóri: Bjarney Lúðvíksdóttir. Leikarar: Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Atli Þór Albertsson og Hermann Guðmundsson. Verkið fjallar um samband tveggja ungmenna sem eru stödd á útihátíð. Þarna var umhverfið alveg tilvalið. Rigningin var sérstaklega útihátíðarleg. Leikarar stóðu sig vel og uppbrotið þar sem sögumaðurinn fót allt í einu að taka eins konar viðtöl við parið, var nokkuð skemmtilegt. En boðskapurinn? „Ekki vera hrædd við að elska?“ Æi, klisja. Og ekki ein af þeim skemmtilegri…
En svona í heildina, tilraun vel þess virði að gera hana. Uppsetning þessarar sýningar hefur eflaust reynst mörgum góður skóli. Um heildarsvip sýningarinnar er það að segja að þrátt fyrir rigningu og sudda leiddist manni aldrei lengi í einu og upplifunin var mjög menningarleg og viðeigandi á aðfaradegi menningarnætur.
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir (Leikhúsrottan)