Rúi og Stúi

Leikfélag Selfoss
ruiogstuihopurLeikstjórn: F. Elli Friðjónsson 

Það er aðeins 45 mínutna akstur að aka frá Hafnarfirði til Selfoss, yfir Sandskeið og Hellisheiði. Það er ekki langt að fara til að sjá skemmtilega leiksýningu  eins og ég og 5 ára afastelpan mín, hún Embla Sól gerðum eina kvöldstund í vikunni. Og á leiðinni er hægt að virða fyrir sér norðurljós og stjörnuhrap í austrinu. 

Það var sko ekkert stjörnuhrap í skemmtilegu verki  þeirra Skúla Rúnars Hilmarssonar og Arnar Alexanderssonar í litla leikhúsi Leikfélags Selfoss við Ölfussána. Þeir Selfyssingar eða Árborgarar, eins og þeir heita víst núna, eru flinkir og tókst dável upp að gera sýninguna að flottri skemmtun fyrir mig og 5 ára hnátuna. 

Stjörnur sýningarinnar eru án efa þær Álfrún Björt Agnarsdóttir og Rakel Ýr Stefánsdóttir  sem fara hreint á kostum sem Rúi og Stúi. Þær eru sko framtíðarleikkonur og gaman verður að sjá þær takast á við fleiri verk á næstu árum. Hlynur Róbertsson sem bæjarstjórinn var einnig skondin og skemmtilegur. Eldri leikararanir stóðu sig einnig vel og gerðu persónum sínum góð skil. Tónlist og hljóðfæraleikur var einnig alveg með ágætum. Litrík leikmynd og búningar þjónuðu vel verkinu og var t.a.m. vélin þeirra Rúa og Stúa einkar hugvitssamleg í einfaldleika sínum. Leikstjórn var lipur og fumlaus hjá F. Ella Hafliðasyni.

Ef maður ætti að setja út á eitthvað þá er það spurning hvort að hægt væri að hafa hléið í sýningunni aðeins fyrr. Sú litla fimm ára var farin að ókyrrast í sætinu síðustu metrana og hljóp svo í einu rykk á salernið þegar hléið kom. Svo er spurning hvort að maður eigi ekki að sleppa svalanum rétt fyrir sýningu. 

Ég þakka Leikfélagi Selfoss fyrir þessa fínu barnasýningu og hvet alla hér á stór-Hafnarfjarðarsvæðinu að fjölmenna til Selfoss að sjá Rúa og Stúa. (Frá Grafarvogi er aðeins 30 mínútna keyrsla). Þessi sýning fær **** stjörnur frá mér.

Lárus Vilhjálmsson