Miðvikudaginn 22. apríl kl 20.00 mun Leikfélag Reykjavíkur frumsýna á litla sviði Borgarleikhússins verkið Peggy Pickit sér andlit guðs eftir þjóðverjann Roland Schimmelpfennig. Vignir Rafn Valþórsson leikstýrir þar úrvalshópi leikara og þýðing verksins er í höndum Hafliða Arngrímssonar.

HVAÐ ÞURFUM VIÐ EIGINLEGA AÐ BURÐAST LENGI MEÐ AFRÍKU Á SAMVISKUNNI?

Sagan: Fyrir sex árum útskrifuðust tvö pör saman úr læknanámi. Þau voru bestu vinir og gerðu allt saman. En svo skildu leiðir. Lísa og Frank fengu góðar stöður á hátæknispítalanum hér heima og lifa góðu lífi: eiga stóra íbúð, fínan bíl og litla dóttur. Katrín og Marteinn fóru aftur á móti til Afríku til starfa sem læknar án landamæra. Þau eiga ekkert. Nú eru þau loks komin heim og það kallar á endurfundi.

En hversu mikið eiga pörin ennþá sameiginlegt? Geta Lísa og Frank einhvern tímann sýnt ástandinu í Afríku skilning? Geta Katrín og Marteinn áttað sig á allri þeirri pressu sem hvílir á okkur sem heima sitjum? Það geta ekki allir bara farið og bjargað heiminum! Og hvernig gátu þau skilið eftir litlu munaðarlausu  stelpuna sem búið er að eyða svo miklum peningum í að bjarga? Af hverju tóku þau hana ekki með sér heim? Hver á núna að fá Peggy Pickit?

Höfundurinn: Roland Schimmelpfennig er þekktasta samtímaleikskáld Þjóðverja. Leikrit hans hafa verið sýnd um allan heim og einkennast af óvæntri sýn á mannfólkið. Eitt af megin- einkennum leikrita hans er hvernig hann vinnur með tímann og endurtekninguna, og reynir þannig skemmtilega á þanþol leikhússins. Peggy Pickit sér andlit Guðs er hluti þríleiks um Afríku sem saminn var fyrir Vulcano-leikhúsið í Toronto, Kanada árið 2010 og tileinkaður flóknu sambandi álfunnar og hins vestræna heims.

Aðstandendur: Höfundur: Roland Schimmelpfennig | Þýðing: Hafliði Arngrímsson| leikstjóri: Vignir Rafn Valþórsson |Tónlist & hljóð: Garðar Borgþórsson | Leikmynd & búningar: Anna Rún Tryggvadóttir | Lýsing: Þórður Orri Pétursson | Leikarar: Maríanna Clara Lúthersdóttir, Valur Freyr Einarsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, og Hjörtur Jóhann Jónsson