Helgi Seljan, fyrrum formaður Bandalags íslenskra leikfélaga er látinn. Helgi var einn af öflugustu félögum hreyfingarinnar um árabil. Hann tók þátt í leikstarfi sem ungur maður og starfaði með Leikfélagi Reyðarfjarðar frá stofnun þess árið 1959 allt þar til hann hóf störf á leiksviði stjórnmálanna. 

Helgi var stjórnarmaður í BÍL á árunum 1966-1976 og gegndi embætti formanns tvö ár, 1972-1974. Sem alþingismaður barðist hann fyrir hag leiklistarhreyfingarinnar m.a. með endurskoðun laga um áhugaleikfélög. 

Helgi var vinamargur og afar vel látinn af þeim sem kynntust honum í leik og starfi. Hann var gleðigjafi og húmoristi mikill sem birtist m.a. í grein sem hann skrifaði fyrir sögu Bandalags íslenskra leikfélaga, Allt fyrir andann sem kom út árið 2008.  Þar fjallar hann um kynni sín af leiklistinni og störf á vegum Bandalagsins. Í greininni birtir Helgi m.a. vísu sem vinur hans Gísli Björgvinsson kvað um hann, þegar Helgi náði kjöri á þing. Var þar vísað í eftirminnilegan leik Helga í hlutverki þess í neðra í Gullna hliðinu: 

Sótti á þing og sæti vann
sigur kommum færði.
Ungur lék hann andskotann
af honum klæki lærði.

Bandalag íslenskra leikfélaga minnist Helga af hlýhug og þakklæti og vottar fjölskyldu og aðstandendum samúð.