Stúdentaleikhúsið frumsýndi fyrir skömmu leikritið Blóðberg sem byggt er á hinni þekktu kvikmynd Magnolia. Útsendari okkar leit á sýningu og hefur ritað um upplifun sína.

Stúdentaleikhúsið
Blóðberg eftir P.T. Andersson
Leikstjóri Agnar Jón Egilsson
Sýnt í Loftkastalanum

Sýning Stúdentaleikhússins Blóðberg er byggð á kvikmyndinni Magnolia sem vakti allnokkra athygli fyrir nokkrum árum. Myndin var byggð upp með nokkrum sögum af fólki sem tengdist með einum eða öðrum hætti. Gegnumgangandi voru misheppnuð sambönd þessa fólks, brostnar vonir og eftirsjá vegna þess sem miður hefur farið í lífi þess, oftar en ekki af þeirra eigin völdum. Ekki er að sjá að mikið hafi verið vikið frá myndinni í leikgerðinni utan að aðeins hefir verið skorið niður. Þar hefði þó mátt ganga lengra því sýningin er óþarflega löng  og jafnvel langdregin úr hófi fram.

blodberg2.jpg Nokkur umskipti hafa orðið í leikarahópi Stúdentaleikhússins síðan á síðasta leikári eins og skiljanlegt er vegna eðlis slíks leikhúss. Það er stór hópur sem er á sviðinu og frammistaðan misjöfn eins og viðbúið er. Hin mörgu hlutverk eru skiljanlega mishentug fyrir leikara til að láta ljós sitt skína en nokkrir þeirra sýndu þó eftirtektarverð tilþrif í sínu. Eftirminnilegust voru þau Ólöf Haraldsdóttir í hlutverki „ofurheilans“ Önnu og Hinrik Þór Svavarsson í hlutverki Daniels „Engils“ Schjutt en einnig má nefna Önnu Björgu Jónasdóttur i hlutverki Klöru og Tryggva Gunnarsson í hlutverki Jóns lögreglumanns.

Ytri umgerð sýningarinnar er ágæt og tæknimál að mestu í góðu lagi en einhvernveginn er eins og hjartað vanti. Það sem helst skortir á í sýningunni er persónusköpunin og leikaravinnan og tæplega annað hægt en að gera leikstjórann ábyrgan fyrir því. Of margar persónur voru eintóna og flatar þar sem ekki virtist mikil áhersla lögð á að leikendur hefðu skilning á og samkennd með persónum sínum. Hið fjölbreytta og skrautlega persónugallerí sem þeir kannast við sem sáu myndina Magnolia varð því ansi sviplaust í sýningunni. Nægjanlega margir leikenda sýndu þó af og til hvað í þá væri spunnið til að gera manni ljóst að mun lengra hefði verið hægt að ná í þessum efnum. Ekki hjálpaði heldur til að sýningin er afar statísk. Sögurnar eru sagðar á fjölmörgum sviðum sem mörg eru ansi lítil og gera það að verkum að leikarar geta hreinlega ekki hreyft sig. Sumstaðar er þó nægt svigrúm til athafna sem leikstjóri kýs því miður ekki að nýta.

Tveir tónlistarmenn eru á sviðinu allan tímann og leggja til bakgrunnstónlist í hinar og þessar senur. Þeir gerðu sitt í sjálfu sér vel en ekki var gerð tilraun til að flétta þá eða tónlistina inn í sýninguna á neinn hátt og erfitt að sjá hversvegna tónlistin var ekki bara leikin af diski. Undirritaður er hinsvegar enn að velta fyrir sér hópsöngnum í seinni hluta sýningarinnar. Mögulega er það meðvitað andóf gegn klisjunni að hafa þennan hópsöng ekki í lok sýningar en þar sem lagið kemur í sýningunni verður það til þess að sýningin klossbremsar niður og erfiðar síðan við að ná upp dampi aftur. Betur hefði einfaldlega farið á því að láta sýninguna enda með þessum hópsöng. Klisjur verða nefnilega stundum klisjur af því einfaldlega að þær virka. Það sem eftir sönginn kemur eru endalausar lausrahnútahnýtingar sem kannski skipta ekki svo miklu máli í raun. Mögulega talar hér þó maður sem sá myndina á sínum tíma og man að mestu hvernig fór.

Ekki er hægt að rita um sýninguna án þess að minnast á utanaðkomandi aðstæður sem höfðu vægast sagt truflandi áhrif á hana. Í fyrsta lagi heyrðust stöðugir dynkir og drunur annarstaðar frá í húsinu sem voru afar pirrandi fyrir þá sem mættu á sýninguna og hafa vafalaust verið afar truflandi fyrir leikendur. Auk þess var svo ískalt í salnum að áhorfendur sátu hríðskjálfandi í sætum sínum allan tímann. Þetta tvennt vann óhjákvæmilega gegn tilraunum leikenda til að hrífa salinn með sér og áhorfenda til að njóta sýningarinnar. Vera kann að þessi umfjöllun hefði verið ögn jákvæðari ef ekki hefði verið fyrir þessi atriði.

Stúdentaleikhúsið hefur sýnt í gegnum tíðina hvers það er megnugt og það getur betur en sýnt er hér.

Hörður Sigurðarson