NEATA Youth hélt leiklistarvinnubúðir fyrir ungt fólk dagana 12.-15. ágúst. Ísland átti þar tvo fulltrúa, þær Söru Rós Guðmundsdóttur og Alexöndru G.B. Haraldsdóttur. Sara Rós sendi okkur eftirfarandi skýrslu um búðirnar:
Dagana 12.-15. ágúst fór fram námskeið á vegum NEATA Youth í Stokkhólmi. Fyrir hönd Íslands fórum við Alexandra og eyddum þessum dögum í 30°C hita, fallegu umhverfi og umkringdar ungu fólki frá Litháen, Lettlandi, Eistlandi, Svíþjóð, Danmörku, Færeyjum og Finnlandi sem allt átti það sameiginlegt að brenna fyrir leiklistinni. Tengingin sem þarna verður er einstök. Hvernig kærleikurinn, traustið og leikgleðin tekur völdin.
Þrátt fyrir stuttan tíma lærðum við heilan helling af Stephen Rappaport sem fleygði okkur langt út fyrir þægindaramma hversdagsleikans. Hver æfing var vel úthugsuð og fékk hann okkur til að treysta hvort öðru, kafa dýpra og ekki síst að treysta okkur sjálfum. Hann lagði mikið upp úr því að búa til tengingu okkar á milli, halda áhorfandanum á tánum og að búa til öruggt rými fyrir sköpunargleðina.
Þegar við vorum ekki sveitt að gera einhverjar leiklistaræfingar skoðuðum við sænska menningu, nutum góða veðursins, kynntumst betur í gegnum alls konar leiklistarleiki og breiddum úr tengslanetinu okkar í Evrópu. Í lok námskeiðsins fengum við kynningu á því hvað NEATA stendur fyrir og hvað NEATA youth er. Við það ultu af stað alls konar hugmyndir hvernig bæta megi starfið, auka vitundarvakningu í hverju landi, efla ungt fólk innan áhugaleikfélaganna og halda þessum tengslum áfram. Þar sem tíminn var af skornum skammti var varla tími til þess að ákveða eitt eða neitt í þeim efnum. Féllust því allir á það að hafa zoom fund sem fyrst til þess að ræða betur um framhaldið.
Þrátt fyrir að klukkutímarnir hafi ekki verið margir sem við áttum saman í Svíþjóð þá lærðum við heilan helling, eignuðumst nýja vini, kveiktum litla leiklistarneista hér og þar í Evrópu og sköpuðum margar fallegar og ógleymanlegar minningar.