Vinna er nú hafin af fullum krafti við tæknilega eina mest krefjandi sýningu Þjóðleikhússins fyrr og síðar, en það er söngleikurinn Leg eftir Hugleik Dagsson. Undirbúningur hefur staðið yfir frá því í haust, en æfingar hófust af fullum krafti nú eftir áramótin. Verkið verður frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins 8. mars næstkomandi, en boðið verður upp á forsýningar á kjarakjörum fim. 1., fös. 2. og lau. 3. mars. Miðinn kostar einungis 1500 krónur.

Í tengslum við sýninguna býður fræðsludeild Þjóðleikhússins upp á ókeypis námskeið fyrir þá sem tryggja sér miða á forsýningu fyrir þriðjudaginn 6. febrúar. Tíminn er því knappur en það er til mikils að vinna…

Örmyndasögur Hugleiks Dagssonar hafa vakið gífurlega athygli innanlands sem utan, en í þeim fæst hann á frumlegan og bráðfyndinn hátt við ýmsar meinsemdir í nútímasamfélagi. Sýningin á Forðist okkur, fyrsta leikriti Hugleiks, þótti afar djörf og nýstárleg, og hann hlaut Grímuna – Íslensku leiklistarverðlaunin sem leikskáld ársins 2006.

 

leg2.pngÍ Legi leggja Hugleikur og félagar til atlögu við söngleikjaformið í verki sem er “vísindasöngleikur um ólétta táningsstúlku” Tónlistin er eftir hljómsveitina Flís og leikmyndin er eftir Ilmi Stefánsdóttur myndlistarkonu. Leikstjóri er Stefán Jónsson.

Á námskeiðinu gefst einstakt tækifæri til þess að fylgjast með þróun vinnunnar við sýninguna, spjalla við listafólkið sjálft og gægjast á bakvið tjöldin í vinnuferlinu.

Hvaða vangaveltur eru í gangi á æfingatímabilinu? Hverju vill listafólkið miðla og tekst þeim það? Hversu langt er hægt að ganga í leikhúsi? Hvar liggja velsæmismörk leikhúsgesta? Hvernig vinna ólíkar listgreinar saman í leikhúsi? Er hægt að vera pólitískur án þess að vera leiðinlegur? Hvaða gildi hefur leikhús sem listform samanborið við aðrar listgreinar?

Námskeiðið er alls þrjú skipti, tveir tímar í senn:

leg3.png 1. skipti: Þriðjudagurinn 6. febrúar kl. 20-22. Staður: Leikhúskjallarinn
Hugmyndaheimur Legs. Textinn, persónurnar og útlit sýningarinnar. Höfundurinn Hugleikur Dagsson, Stefán Jónsson leikstjóri sýningarinnar, Ilmur Stefánsdóttir leikmyndahöfundur, Þórunn E. Sveinsdóttir búningahöfundur og fleiri aðstandendur sýningarinnar segja frá.

2. skipti: Þriðjudagurinn 13. febrúar kl. 20-22. Staður: Stóra sviðið og Leikhúskj.
Innlit á æfingu og hljóðheimur sýningarinnar. Hljómsveitin Flís segir frá sínum þætti í sýningunni.

Farið á forsýningu 1., 2. eða 3. mars

3. skipti: Þriðjudaginn 13. mars kl. 20-22. Staður: Leikhúskjallarinn.
Umræður við leikara sýningarinnar og listræna aðstandendur. Þátttakendur fá tækifæri til þess að ræða um upplifun sína á sýningunni og heyra aðstandendur segja frá vinnunni við sýninguna.

Einfalt er að tryggja sér sæti á námskeiðinu. Kauptu þér miða á eina af forsýningunum  fyrir þriðjudaginn 6. febrúar og láttu vita í leiðinni að þú viljir skrá þig á námskeiðið. Síminn í miðasölu Þjóðleikhússins er 551 1200  og netfangið er  midasala@leikhusid.is. 

Fjöldi þátttakenda er takmarkaður.