Leikfélag Sauðárkróks
Svefnlausi brúðguminn
Leikstjóri: Jakob S. Jónsson

svefnlausi_brudguminn2
Hefð er fyrir því að Leikfélag Sauðárkróks frumsýni í upphafi Sæluviku, hinni árlegu lista- og menningarhátíð Skagfirðinga sem rekur uppruna sinna allt aftur á 19. öld. Ekki var brugðið út af vananum að þessu sinni og þann 1. maí síðast liðinn frumsýndi leikfélagið leikritið Svefnlausa brúðgumann eftir Þjóðverjanna Arnold og Bach. Leikrit þeirra félaga eru nokkuð vel þekkt hér á landi, má þar nefna Húrra krakki, Spanskflugan, Stundum og stundum ekki og Karlinn í kassanum en öll þessi leikrit hafa verið sýnd nokkuð reglulega síðan um miðja síðustu öld.

Líkt og hin verk tvíeykisins er Svefnlausi brúðguminn dæmigerður farsi sem byggist á laumuspili og eilífum misskilningi en allt fer svo vel að lokum. Hurðaskellirnir eru að sjálfsögðu líka á sínum stað. Leikstjórinn, Jakob S. Jónsson, hefur gert nýja leikgerð af handritinu (sem var á sínum tíma þýtt af Sverri Haraldssyni) og bæði fært það í nútímanlegri búning sem og staðsett það í skagfirsku samhengi. Þannig er eftirnafn lykilfjölskyldunnar Skagfjörð, Drangey blasir við út um stofugluggann og Bólu-Hjálmar spilar nokkra rullu í verkinu. Skagfirskara getur það varla verið! Þessi uppfærsla í tíma og rúmi heppnast að flestu leyti ágætlega og ýtir undir kómíkina.

Söguþráðurinn er sjaldan flókinn þegar um farsa að ræða og textinn yfirleitt ekki innihaldsríkur. Kímnin felst því einna helst í aðstæðum sem skapast en ekki endilega í textanum sjálfum sem þýðir að flæðið í sýningunni þarf að vera mjög gott og innkomur og allar tímasetningar þurfa að vera háréttar til þess að brandararnir gangi upp. Þetta tekst prýðilega hjá Leikfélagi Sauðárkróks og ber styrkri leikstjórn gott vitni. Stundum hættir mönnum til að ýkja og jafnvel ofleika þegar um farsa er að ræða en svo var alls ekki raunin að þessu sinni. Leikur var almennt hófstilltur en þó alls ekki kraftlítill. Leikhópurinn var raunar nokkuð jafn þótt vissulega hafi menn verið misöruggir í hlutverkum sínum. Hér er ekki ætlunin að fjalla um framistöðu einstakra leikara en þó verður ekki komist hjá því að nefna Kristján Örn Kristjánsson sem leikur burðarhlutverkið en hann átti stórgóðan leik á köflum.

Sviðsuppsetningin er einföld en styður mjög vel við sýninguna, fáir húsmunir einfalda flæðið og gefa gott rými fyrir hreyfingar út og inn um hinar fjóru mismunandi dyr. Skiptingar á milli sviða voru líka snöggar og fagmannlegar en þetta er sá þáttur sem oft verður útundan hjá áhugaleikfélögum en skiptir miklu máli fyrir rythmann í sýningunni.

Hurðaskellir í upphafi sýningarinnar slógu hressilega tóninn og sú stemming hélst ágætlega sýninguna á enda. Sýning Leikfélags Sauðárkróks á Svefnlausa brúðgumanum er því prýðis kvöldskemmtun, það er gott að geta hlegið og þeir sem leggja á sig ómælt erfiði til þess að geta skemmt okkur hinum í eina kvöldstund eiga þakkir skildar.

Guðrún Þóra Gunnarsdóttir

{mos_fb_discuss:2}