Þjóðleikhúsið frumsýnir þann 8. apríl, Bjart með köflum, nýtt leikrit með söngvum eftir Ólaf Hauk Símonarson. Ólafur Haukur hefur skrifað mörg geysivinsæl leikrit sem sýnd hafa verið í Þjóðleikhúsinu á síðustu áratugum, meðal annars Gauragang, Þrek og tár, Hafið, Græna landið og Bílaverkstæði Badda, sem voru sett á svið undir stjórn Þórhalls Sigurðssonar. Þeir félagar færa okkur nú glænýtt og kraftmikið leikrit með sívinsælli tónlist frá ofanverðum sjöunda áratugnum.

Árið 1968 er ungur piltur úr Reykjavík, Jakob, sendur í sveit að bænum Gili þar sem nútíminn virðist enn ekki hafa haldið innreið sína, og fjölskyldan stritar við að yrkja landið og sækja sjóinn líkt og forfeðurnir hafa gert um aldir. Jakob er rokkari, og hefur ætlað sér að lifa vistina af með því að spila á rafmagnsgítarinn sinn, en á þessum gamla bæ er ekki einu sinni komið rafmagn. Innan skamms virðist Jakob vera orðinn miðpunkturinn í ævagömlum fjandskap á milli bæja í sveitinni. Ástin ólgar, heiftin kraumar og rokklögin hljóma af blússandi krafti.

Leikritið gerist á tímum efnahagserfiðleika þegar fólk flýr land í leit að nýjum tækifærum og þeir sem eftir verða hljóta að spyrja sig að því hvers vegna þeir vilji búa hér?  

Leikstjórn er sem fyrr segir í höndum Þórhalls Sigurðarsonar, leikmyndin er eftir Axel Hallkel, búningar eftir Þórunni Elísabetu Sveinsdóttur, tónlistarstjóri er Jón Ólafsson, hönnuður lýsingar er Halldór Örn Óskarsson og Sveinbjörg Þórhallsdóttir sér um sviðshreyfingar.

Þrír ungir leikarar fara með aðalhlutverk í sýningunni, þau Hilmir Jensson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Heiða Ólafsdóttir, en Heiða þreytir nú frumraun sína í Þjóðleikhúsinu. Með önnur hlutverk fara Pálmi Gestsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Örn Árnason, Anna Kristín Arngrímsdóttir, Atli Þór Albertsson, Friðrik Friðriksson, Ólafur Egill Egilsson, Þórunn Lárusdóttir, Lára Sveinsdóttir, Hannes Óli Ágústsson og Ævar Þór Benediktsson.

{mos_fb_discuss:2}