Nú á haustdögum fer af stað námskeið í leikhússporti hjá Leikfélagi Kópavogs. Félagar LK eru búinr að rýma til í nýju húsnæði sínu í Funalind í Kópavogi og útbúa æfingaaðstöðu þannig að nú er þeim ekki til setunnar boðið og mun námskeiðið hefjast fimmtudaginn 25. október næstkomandi. Námskeiðið er öllum opið sem áhuga hafa á að læra leikhússport eða æfa sig í spuna, en það verður haldið einu sinni í viku, á fimmtudögum, allavega til að byrja með. Einnig verða haldnar leikhússportkeppnir.

 
Um leikhússport
 
Leikhússport eða theatersports er keppni í spuna og upphafsmaður þess er Keith Johnstone hjá Loose Moose Theater í Kanada. Keith fannst eins og það vantaði í leikhús að áhorfendur tækju virkan þátt í sýningum, eins og gerist t.d. í íþróttakeppnum og bandarískri glímu (Wrestling). Þá datt honum í hug að láta leikara keppa sín á milli þar sem áherslan væri á leikgleði og sigur í keppninni skipti minna máli. Liðin skiptast á að skora á hitt liðið að segja sögu eftir einhverju ákveðnu þema eða stíl og dómarar gefa stig fyrir söguþráð, tækni og skemmtun.
 
Spuninn í leikhússportkeppni byggist í kringum ákveðnar reglur sem farið verður í á námskeiðinu og einnig verður farið í gegnum reglur ákveðinna leikja og stíla sem notaðir eru í keppni.
 
Hversvegna að æfa sig í spuna?
 
Eins og og breski leikhusmaðurinn Stephen Harper komst svo vel að orði: „Besta leiðin til að verða góður í spuna er að æfa sig í spuna“. Enginn er góður í spuna frá náttúrunnar hendi. Sjálfstraust og öryggi kemur með því að æfa spuna. Maður byggir upp vopnabúr sem maður hefur við hendina þegar stigið er á svið, hvort sem þú ert að fara að spinna á sviði eða þarft að redda þér af því að mótleikarinn fékk höfuðhögg og gleymdi öllum línunum sínum.

Þeir sem áhuga hafa á að skrá sig sendið nafn og póstfang á leikhussport@gmail.com. Leiðbeinandi á námskeiðinu verður Gísli Björn Heimisson.
 

{mos_fb_discuss:3}