Núna á föstudaginn 5. febrúar verður frumsýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu nýtt verk eftir skáldið Sjón (Sigurjón Birgir Sigurðsson). Þessa hefur verið beðið í nokkurn tíma að Sjón skrifi leikverk í fullri lengd, því ekki aðeins hefur Sjón verið fyrirferða mikill á ritvellinum heldur er óhætt að fullyrða að hann sé einn áhrifamesti listamaður sinnar kynslóðar. Hann hefur sent frá sér fjölda ritverka, sönglagatexta, ljóðabækur, smásögur, skáldsögur og barnabækur, en nú kemur hann sem sagt fram með sitt fyrsta leikrit í fullri lengd, sérstaklega samið fyrir Lab Loka.
Ufsagrýlur er verk sem tekur á málefnum líðandi stundar, en eins og við má búast er nálgun og efnistök höfundarins sérstök, sambland af “groteskum vísindaskáldskap” og “leikhúsi fáránleikans” í baksýnisspeglinum verða mörk þeirrar ágæti stefnu og íslensks samfélags harla óskýr á undanliðnum árum
Orð Höfundar um Ufsagrýlur
“Góðu dagarnir sundruðu sálinni, afskræmdu líkamann, þurrkuðu út mörkin milli manna og drýsla. Á leynilegri sjúkrastofnun hefst endurhæfingin, leitin að nýrri manneskju með heilbrigða sál í hraustum líkama. En það getur verið erfitt að venja sig af gulláti og saurugum hugsunum, og ekki er víst að alltaf búi flagð undir fögru skinni – eða öfugt”.
Sjón er margverðlaunaður fyrir skrif sín, var m.a. tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir texta sína í kvikmyndinni Dancer in the Dark eftir Lars von Trier. Hann hlaut verðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins 1998, Menningarverðlaun DV. 1995 og 2002 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2002.
Lab Loki hefur starfað síðan 1992 bæði hérlendis og erlendis og hlotið ýmsar viðurkenningar gegnum tíðina. Þetta er í annað sinn sem Hafnarfjarðarleikhúsið og Lab Loki rugla saman reitum, Steinar í Djúpinu vart sýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu í fyrra og hlaut einróma lof áhorfenda og gagnrýnenda. Rúnar Guðbrandsson höfundur og leikstjóri sýningarinnar var tilnefndur til Menningarverðlauna DV og sýningin hlaut tólf tilnefningar til íslensku sviðslistaverðlaunanna Grímunnar, en þrjár Grímur féllu henni í skaut.
Þátttakendur í verkefninu eru flestir sömu listrænir stjórnendur og unnu að Steinari í djúpinu.
Höfundur: Sjón.
Leikstjóri: Rúnar Guðbrandsson.
Tónlist: Stilluppsteypa = Sigtryggur Berg Sigmarsson, Helgi Þórsson
Leikmynd: Móeiður Helgadóttir.
Búningar: Myrra Leifsdóttir.
Gervi: Ásta Hafþórsdóttir.
Lýsing: Garðar Borgþórsson.
Leikarar: Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Árni Pétur Guðjónsson, Birna Hafstein, Erling Jóhannesson, Hjálmar Hjálmarsson, Orri Huginn Ágústsson. o.fl.