Guðmundur Karl Sigurdórsson brá sér í Þingborg og lætur vel af því sem hann sá: 

„Ungmennafélögin í Flóahreppi setja nú í þriðja sinn á svið leiksýningu í sameiningu. Fyrir valinu varð verkið Páskahret eftir Árna Hjartarson, verk sem hentar leikhópnum ágætlega með mörgum sérstökum persónum og skemmtilegri atburðarrás. Happafengur var félögunum að fá Jón Stefán Kristjánsson til þess að stýra snjóbílnum í þessari ferð því útkoman er stórskemmtileg og er þáttur leikstjórans drjúgur í að ná því besta fram hjá ungum leikhópnum. Upprunalega er leikritið með söngvum, sem felldir hafa verið út, án þess að það bitni nokkuð á verkinu í heild sinni“

.

„Leikritið gerist í skála í Hrafntinnuskeri en þar hefur hópur ólíkra einstaklinga leitað gistingar eftir að hafa lent í miklu illviðri. Innan skamms fara óvæntir hlutir að gerast, gamlar erjur koma upp á yfirborðið og illvirki er framið í skálanum. Óútskýranlegir hlutir gerast og taugatitringur vex hjá skálabúum meðan víkingasveit lögreglunnar og björgunarsveitir keppast við að verða fyrstar á staðinn og upplýsa málið.

Sem fyrr segir er leikhópurinn ungur og víða örlar á reynsluleysi. Bjarni Stefánsson í Túni fer fyrir hópnum í virkilega krefjandi hlutverki og er óhætt að segja að Bjarni standi – eða sitji sig með stakri prýði. Eftir að hafa séð fyrri sýningar Flóamanna á maður von á góðum hlutum frá Laufeyju Einarsdóttur og Hallfríði Ósk Aðalsteinsdóttur sem skila sínum hlutverkum algjörlega eins og til er ætlast. Dagbjartur Ketilsson er líka góður sem hinn drykkfelldi Reynir.

Félagsheimilið hentar vel til þessarar uppsetningar, ekki bara af því að maður getur tyllt sér með súkkulaðiköku í hléinu, heldur líka vegna þess að sviðið er rúmgott og nýtist vel. Ótrúlega vel, verð ég að segja miðað við þær óvæntu hamfarir sem frábær leikmynd verður fyrir í lokin. Í raun er leikið á tveimur hæðum, eða í tveimur víddum og eru þær lausnir sem Jón Stefán hefur þar dottið niður á, frábærar. Þar spilar líka inn í vel heppnuð ljósahönnun Benedikts Axelssonar, þó oft hafi verið full dimmt á efra sviðinu. Notkun áhrifahljóða spilar stóran þátt og þar er vel að verki staðið.

Þessi sýning er hin besta skemmtun og leikhúsáhugafólk ætti að hópast í þennan skemmtilega leiðangur með Flóamönnum.

Guðmundur Karl Sigurdórsson.

 
Leikdeild Umf Vöku, í samstarfi við ungmennafélögin Baldur og Samhygð í Flóahreppi, sýna Páskahret eftir Árna Hjartarson. Leikstjóri: Jón Stefán Kristjánsson. Helstu hlutverk: Bjarni Stefánsson, Laufey Einarsdóttir, Þorsteinn Logi Einarsson, Hlynur Snær Erlingsson, Fjóla Signý Hannesdóttir, Helga Björk Helgadóttir, Margrét Valdimarsdóttir, Dagbjartur Ketilsson, Hallfríður Ósk Aðalsteinsdóttir, Tómas Karl Guðsteinsson, Erla Björg Aðalsteinsdóttir og Sigmar Örn Aðalsteinsson. Hljóðstjóri: Hannes Hreiðar Sigmarsson. Ljósahönnun: Benedikt Axelsson. Búningar og leikmunir: Guðmunda Ólafsdóttir. Frumsýning í félagsheimilinu Þingborg, föstudaginn 27. febrúar.