ImageFyrsta frumsýning haustsins á Stóra sviði Þjóðleikhússins er Halldór í Hollywood eftir Ólaf Hauk Símonarson en það verður frumsýnt á föstudag. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.

Leikritið byggir á Ameríkuárum Halldórs Kiljans Laxness 1927 – 1929 þegar Halldór var ungur ofurhugi. Í Hollywood heillaðist hann af kvikmyndaiðnaðinum og ætlaði sér að slá í gegn sem handritshöfundur kvikmynda. En það var ekki auðvelt að sigra Hollywood þá frekar en nú og hræsnin í bandarísku samfélagi átti ekki upp á pallborðið hjá skáldinu. Hann varð fljótt gagnrýninn á efnalega mismunun og þjóðfélagslegt ranglæti.

Í leikriti Ólafs Hauks sjáum við hvernig dvöl Halldórs í Ameríku varð fyrst og fremst til þess að hann fann Ísland á ný og gerðist íslenskur rithöfundur. Við sögu koma ýmsir vinir og velgjörðarmenn Halldórs frá Ameríkuárunum, nokkrar af skærustu stjörnum Hollywood á þessum tíma eins og Charlie Chaplin og Greta Garbo og síðast en ekki síst allar konurnar í lífi hans.

Image Ólafur Haukur Símonarson er eitt mikilvirkasta og vinsælasta leikskáld Íslendinga en hann hefur einnig sent frá sér ljóðabækur, smásögur og skáldsögur, skrifað útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndahandrit, gefið út hljómplötur með eigin lögum og söngtextum og þýtt bækur, leikrit og kvikmyndir. Leikrit Ólafs Hauks hafa verið sýnd víða en fyrsta leikrit hans sem tekið var til sýninga í Þjóðleikhúsinu var þríleikurinn Milli skinns og hörunds sem sýndur var árið 1984. Í kjölfarið fylgdu Bílaverkstæði Badda, Hafið, Gauragangur, Þrek og tár, Kennarar óskast og Meiri gauragangur. Síðustu verk Ólafs sem sýnd voru í Þjóðleikhúsinu voru Viktoría og Georg og Græna landið. Hafið hlaut Menningarverðlaun DV 1993, var tilnefnt til Norrænu leikskáldaverðlaunanna og valið til sýningar á leiklistarhátíðinni í Bonn. Ólafur Haukur hefur skrifað handrit tveggja kvikmynda, sem báðar byggja á leikritum eftir hann, kvikmyndirnar Ryð og Hafið.

Leikendur eru Atli Rafn Sigurðarson sem fer með hlutverk Nóbelskáldsins, Baldur Trausti Hreinsson, Edda Björgvinsdóttir, Margrét Kaaber, en þetta er frumraun hennar í Þjóðleikhúsinu, Jóhann Sigurðarson, Kjartan Guðjónsson, María Pálsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Randver Þorláksson, Rúnar Freyr Gíslason, Selma Björnsdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir.

Tíu ný lög við ljóð Halldórs eru í sýningunni. Höfundar tónlistar eru þeir Jóhann G. Jóhannsson og Árna Heiðar Karlsson sem jafnframt er hljómsveitarstjóri. Fjögurra manna hljómsveit tekur þátt í sýningunni. Auk Árna Heiðars (píanó), skipa hana Andrés Þór Gunnlaugsson (gítar), Gunnar Hrafnsson (kontrabassi) og Ólafur Jónsson (saxófónn). Lýsing er í höndum Páls Ragnarssonar, búninga gerir Þórunn Elísabet Sveinsdóttir, höfundur leikmyndar er Frosti Friðriksson, aðstoðarleikstjóri er Aino Freyja Järvelä og leikstjóri er sem fyrr segir Ágústa Skúladóttir.