ImageSkagaleikflokkurinn sýnir nýtt verk „Hlutskipti“ eftir Kristján Kristjánsson á kosningadaginn þann 27. maí í Bæjarleikhúsi þeirra Mosfellinga. Sýningin verður kl. 19.00.

Verkið er í leikstjórn Ingu Bjarnason.og var frumsýnt þann 28. apríl sl. á Akranesi. „Hlutskipti“ er þriðja verkið sem Kristján skrifar fyrir Skagaleikflokkinn, hin eru „Alltaf má fá annað skip“ og „Lifðu- yfir dauðans haf“ (munið eftir sundlauginni á Akureyri 2000).
„Hlutskipti“ er fjölskyldusaga en gerist á einum degi, afmælisdegi föðurins, sem fallinn er frá fyrir fjórum árum. Fjögur systkini koma saman til að skipta búi móður sinnar sem þjáist af heilabilun og dvelur á hjúkrunarheimili. Farið er reglulega aftur í tímann fyrir tilstilli yngstu dótturinnar og áhorfandinn fær innsýn í líf fjölskyldunnar.

Skessuhorn, 3. maí 2006, Anna Lára Steindal:
Leikstjórinn hefur greinilega unnið vel með sínu fólki því bæði skiluðu leikararnir textanum sínum á mjög sannfærandi hátt og hreyfingar þeirra og látbragð allt gerði það að verkum að sýningin í heild var mjög lifandi og trúverðug.
Þrátt fyrir að umfjöllunarefnið sé alvarlegt er sýningin stórskemmtileg og mörg tilefni gefast til þess að hlæja hjartanlega.

Fréttavefur Þjóðleikhússins, 7. maí 2006:
Auk verðlaunasýningarinnar hlutu nokkrar sýningar sérstaka viðurkenningu dómnefndar: Skagaleikflokkurinn sýndi okkur nýtt og afar metnaðarfullt fjölskyldudrama eftir Kristján Kristjánsson í splunkunýju leikrými á Akranesi. Athyglisverð úrvinnsla í handriti gaf leikhópi og leikstjóra tækifæri til að skapa eftirminnilega sögu á sviðinu. Þar átti Guðbjörg Árnadóttir í hlutverki móðurinnar stórleik.

Morgunblaðið, 22. maí 2006, Hrund Ólafsdóttir:
Leikstjórn hennar (Ingu) hér er feikna örugg og skemmtileg hvað varðar rýmisnotkun þar sem leikmyndin er stór hluti af sýningunni; hvað varðar persónusköpun og ekki síst hvað varðar afar góðan stuðning við texta höfundarins…… Hún (Inga) skapar látlaust en sprelllifandi leikhús þar sem auðvelt er að gleyma stund og stað með persónum sem mjög misreyndir leikararnir skapa.