Nú eru allir líklega búnir að fá nóg af mærð um öll snilldarverkin á jólabókamarkaðnum. Í tilefni af því setti ég saman lista af tíu skemmtilegum bókum sem tengjast leiklist á einn eða annan hátt. Þetta er ekki listinn yfir tíu ómissandi bækur sem allir verða að hafa í fórum sínum. Hann kemur síðar. Hér eru fyrst og fremst á ferð skemmtilegar bækur sem koma að leikhúsinu úr ýmsum áttum, stundum næsta óvæntum.

Tempest-toast
Leikfélagið í Salterton hyggst setja upp Ofviðrið eftir Shakespeare og hinn rúðustrikaði gjaldkeri félagsins ákveður að nú sé komið að því að hann fái að spreyta sig á fjölunum. Afleiðingar þess eru einungis einn þráðurinn í þessari makalausu sögu eftir kanadíska sagnameistarann Robertson Davies. Íslenskir áhugaleikhúsmenn sem vilja kynnast bræðrum og systrum í Könödu ættu að lesa þessa bók.

Acting up
Þegar breska leikskáldið David Hare (Vilji Emmu, Bláa herbergið og Ofanljós) þreytti frumraun sína sem leikari í einleik sínum, Via Dolorosa, hélt hann góðu heilli dagbók yfir þessa nýstárlegu reynslu. Útkoman er aldeilis frábær greining á glímu leikarans, skrifuð af manni með innsæi sprottið af áratuga reynslu af leikhúsinu, en samt í sporum byrjandans.

Shooting the actor
Simon Callow kannast fólk líklega helst við  í hlutverki glaðbeitta hommans sem deyr í Fjögur brúðkaup og jarðarför. Þessi stólpaleikari er líka snjall rithöfundur og þessi bók segir frá stormasamri samvinnu hans við júgóslavneska kvikmyndagerðarmanninn Dusan Makavejev við gerð myndarinnar Manifesto (1988). Fyrir þá sem hafa áhuga á kvikmyndaleik eða -gerð er þessi innsýn í hlutskipti leikarans og muninn á sviðs- og kvikmyndaleik ómissandi.

Writing home
Alan Bennett er með öllu ókynntur höfundur hér á landi, þannig að þið verðið bara að trúa mér þegar ég segi að hann er alger meistari, hvort heldur sem leikskáld, handritahöfundur fyrir sjónvarp og kvikmyndir, eða eins og í þessri bók. Hún inniheldur dagbækur, ritgerðir um verk hans og ýmsa samferðamenn, svo og allskyns óflokkanleg skrif. Allsstaðar blasir snilldarlegur stíllinn við; fyndinn, ljúfsár, beittur, en umfram allt enskur.

Year of the King
Uppfærsla Royal Shakespeare Company á Ríkharði III eftir Shakespeare árið 1985 er enn í minnum höfð, einkum vegna frammistöðu aðalleikarans, Anthony Sher. Hann gaf seinna út þessa bók sem rekur sköpunarsögu sýningarinnar og túlkunar hans á kroppinbaknum illræmda. Þetta er ákaflega fróðlegt ferðalag um rannsóknarvinnu, útlitspælingar, sálfræði illskunnar og leiktækni. Myndkreytt af höfundi, sem er afburðasnjall teiknari, auk annara hæfileika. Þeim sem langar að sjá hann leika er bent á að fylgjast grannt með sálfræðingnum í Shakespeare in love og Disraeli í Mrs. Brown.

Dagbækur Joe Orton
Meiri dagbækur, en nú af allt öðru sauðahúsi. Hér segir frá síðustu æviárum leikskáldsins, frá því að hann sló endanlega í gegn með Illum feng (Loot) og þar til kvöldið áður en hann var myrtur af sambýlismanni sínum. Sjónarhorn Ortons á mannlífið og menninguna var einstakt og kemur skýrt fram í dagbókunum. Endalausar og smásmyglislegar lýsingar hans á kynlífi sínu gera það hinsvegar að verkum að bókin er ill yfirferðar fyrir pempíur.

Dagbækur Peter Hall
Ef einhvern langar til að verða leikhússtjóri ætti viðkomandi fyrst að lesa þessa bók, sem lýsir undirbúningi, opnun og fyrstu árum breska þjóðleikhússins í húsnæði sínu á Thamesbökkum. Lýsingar á stríði leikhússtjórans við iðnaðarmenn, kerfiskalla og verkalýðshetjur eru að sönnu veigamiklar og leiðinlegar en bókin er full af skarplegum athugasemdum um leikrit, leikara, leikstjórn, tónlist og listsköpun almennt. Semsagt: gullnáma fyrir leikhúsfólk.

Threads of time
Sjálfsævisögubrot Peter Brook eru lýsing á ferðalagi, leit að visku og sannleika og leit að leiðum til að miðla þeim sannleika til annara. Þroskasaga eins áhrifamesta leikhússmans samtímans. Þarf að segja meira?

Níu ár í neðra
Gætum við fengið að lesa eitthvað Íslenskt? Yfirlit Sveins Einarssonar um árin sem hann stjórnaði Leikfélagi Reykjavíkur er skyldulesning, en það er ljúf skylda, enda Sveinn góður penni og viðfangsefnið ómótstæðilegt: mótunar- og uppgangsár atvinnuleikhússins á Íslandi. Löngu seinna tók Sveinn þjóðleikhússtjóraár sín svipuðum tökum (Ellefu í efra) en mér finnst sú fyrri betri. Best er auðvitað að lesa þær báðar.

Black Snow
Ég kalla hana upp á ensku vegna lélegrar rússneskukunnáttu, en þetta er stutt skáldsaga eftir Mikaíl Búlgakov, þann hinn sama og skrifaði Meistarann og Margarítu. Búlgakov var mikilvirkt leikskáld á vegum Listaleikhússins í Moskvu og Black Snow er háðsádeila á þá merku stofnun og höfuðpaura hennar, þá Stanislavskí og Nemírovitsj-Dantsjénkó. Bráðfyndin og ósvífin mynd af helstu höfundum nútíma leiklistar.

Þorgeir Tryggvason