Leikfélag Kópavogs frumsýnir “nýtt” leikverk í Leikhúsinu föstudaginn 15. sept. kl. 20.00. “Nýtt” er haft í gæsalöppum því tilurð verksins er óvenjuleg. Leikritið Snertu mig – ekki! var frumsýnd hjá Leikfélagi Kópavogs fyrir ári. Ýmsir sem sáu höfðu á orð að þá fýsti að vita meira um afdrif þremenninganna sem þar var sagt frá.
Eins og fram kom í leikdómi Árna Hjartarsonar á Leiklistarvefnum:
Áhorfendur klöppuðu […] aðstandendum lof í lófa … [Undirritaður] hefði þó alveg verið til í að sitja lengur og sjá meira af þessum ágætu hjónum í Kópavoginum og vinkonunni kæru og vandamálum þeirra.
Leikhópurinn brást snöfurmannlega við og grennslaðist fyrir um afdrif þremenninganna. Afraksturinn varð framhald af leikritinu sem fékk heitið „Snertu mig – ekki! – Snertu mig“ og er nú sýnt sem leikrit í fullri lengd. Þeir sem sáu verkið í fyrra geta rifjað upp og einnig komist að afdrifum persónanna. Þeir sem ekki sáu fyrri útgáfuna eiga þess nú kost að sjá sýninguna, með öllu.

Höfundur er Örn Alexandersson og leikstjóri er Sigrún Tryggvadóttir. Sýnt er í leikhúsinu að Funalind 2 eins og áður segir. Miðapantanir eru á vef félagsins kopleik.is.