Kómedíuleikhúsið frumsýnir einleikinn Skrímsli í Baldurshaga á Bíldudal á sumardaginn fyrsta, 19. apríl.
Mun þetta vera í annað sinn sem atvinnnuleikhús frumsýnir á Bíldudal, en áður hefur Kómedíuleikhúsið frumsýnt þar einleikinn um Mugg.

Frá örófi alda hafa skrímsl af ýmsum toga reglulega sést í sjó og vötnum á Íslandi. Strax í Landnámu er getið sjávar- og vatnaskrímsla og frásögur af samskiptum þeirra við landsmenn frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar fylla heilu ritsöfnin.
Skepnur þessar eru af ýmsum toga, litlar og stórar, grimmar, ljúfar, illskeyttar og stundum jafnvel lífhættulegar.
En hverjar eru þessar dularfullu verur, hvar er þær helst að finna og hvernig er best að bera kennsl á þær?

Þessum spurningum svarar skrímslafræðingurinn Jónatan Þorvaldsson, sem leikinn er af Elfari Loga Hannessyni, í einleiknum Skrímsli og setur um leið fram óvéfengjanlegar sannanir fyrir tilvist skrímsla í sjó og vötnum á Íslandi.

Höfundur og leikstjóri er Pétur Eggerz. Tónlist er eftir Guðna Franzson og Marsibil G. Kristjánsdóttir gerir skrímslamyndir.

Það er ekki að ástæðulausu að Skrímsli sé frumsýnt á Bíldudal því Arnarfjörðurinn er sagður vera einn mesti skrímslafjörður landsins sé mekka skrímslana á Íslandi. Bílddælingar vinna nú að opnun sérstaks skrímslaseturs sem verður opnað á Bíldudal sumarið 2008. Það má því segja að frumsýningin sé einskonar upphitun fyrir opnun skrímslasetursins enda er stefnt að því að leikurinn verði sýndur þar í framtíðinni.

Íbúuum höfðborgarsvæðisins gefst síðan kostur að berja Skrímsli Kómedíuleikhússins augum laugardaginn 21. apríl, en þá verður Reykjavíkurfrumsýning á verkinu í Möguleikhúsinu við Hlemm.
Skrímsli er ferðasýning og verður leikin í skólum og víðar um land allt á næstu misserum.

Kómedíuleikhúsið er fyrsta atvinnuleikhúsið á Vestfjörðum og hefur sett upp fjölmarga einleiki undanfarin ár. Meðal leikja eru Steinn Steinarr, Dimmalimm og verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson sem hefur verið sýndur við miklar vinsældir og verið sýndur yfir 140 sinnum bæði hér heima og erlendis. Kómedíuleikhúsið stendur einnig fyrir leiklistarhátíðinni Act alone á Ísafirði. Hátíðin er helguð einleikjum og verður haldin fjórða árið í röð nú í sumar. Jafnframt er Act alone eina árlega leiklistarhátíðin á Íslandi og er aðgangur ókeypis.

{mos_fb_discuss:2}