Leikhópurinn Lakehouse snýr aftur á svið með margrómaða verkið Í samhengi við Stjörnurnar!
fimmtudaginn 24. ágúst í Tjarnarbíó kl. 20:30.

Leikritið Í samhengi við stjörnurnar eftir Nick Payne kom öllum á óvart með einlægni sinni og frumleika árið 2012 og sló í gegn á West End í London og á Broadway í New York, þar sem Jake Gyllenhaal og Ruth Wilson léku aðalhlutverkin. Verkið verður nú sýnt í fyrsta sinn á Íslandi.

Það er leikhópurinn Lakehouse sem setur verkið upp á Íslandi, en forsprakki hópsins, Árni Kristjánsson, er nýkominn úr mastersnámi í leikstjórn frá Bristol. Þetta verður hans fyrsta sjálfstæða uppsetning eftir útskrift, en hann framleiðir verkið ásamt konu sinni, Hörpu Fönn Sigurjónsdóttir, sem semur einnig tónlistina fyrir verkið. Aðrir sem koma að verkinu eru Þórunn María Jónsdóttir hönnuður leikmyndar og búninga, Hafliði Emil Barðason, hönnuður ljósa og tækni og Ólafur Ásgeirsson, aðstoðarleikstjóri. Leikarar eru Birgitta Birgisdóttir og Hilmir Jensson.

Í samhengi við stjörnurnar er nútímasaga eftir ungan breskan höfund og fjallar um litlu og stóru atvikin sem geta umbreytt ástarsambandi. Sagan er sögð á óvenjulegan hátt þar sem samband aðalpersónanna Maríu og Ragnars þróast í ótal mögulegar áttir í ‘samhliða víddum’.  Við sjáum parið bregðast við kunnuglegum augnablikum á mismunandi vegu, á meðan samband þeirra tekur viðeigandi dýfur og hæðir. Við sjáum hversu hverfult og stutt lífið er, og hvernig ein röng beygja getur haft gríðarlegar afleiðingar á atburðarrásina. Leikritunarformið er byggt á lögmálum skammtafræðinnar og afstæðiskenningarinnar.

Sýningar verða fjórar í haust, sem og tvær út á landi (í Frystiklefanum í Rifi og í Sláturhúsinum á Egilstöðum). Fyrsta sýningin er fimmtudaginn 24. ágúst í Tjarnarbíói.