Leikfélag Reykjavíkur fagnar í dag 120 ára afmæli sínu en það var stofnað 11. janúar 1897. 

Félagið er elsta leikfélag sem starfað hefur óslitið á Íslandi og er jafnframt eitt elsta starfandi menningarfélag landsins.  Leikfélag Reykjavíkur var frá upphafi mjög metnaðarfullt og félagarnir tilbúnir að leggja hart að sér til að standa fyrir sýningum í  hæsta gæðaflokki en í 14. grein stofnlaga félagsins stóð ,,allir fyrir einn og einn fyrir alla…“  – það endurspeglar hugsjónir félagsins og samstöðu félaganna sem hefur haldist til þessa dags. Leikfélag Reykjavíkur hafði lengi aðsetur í Iðnaðarmannahúsinu eða Iðnó við Tjörnina en flutti í Borgarleikhúsið árið 1989. Starfsemi félagsins er styrkt að stærstum hluta af Reykjavíkurborg og setur upp allt að 15 leiksýningar á ári hverju.

Í tilefni dagsins frumsýnir leikfélagið verkið Ræman eftir Annie Baker og er það sexhundraðasta frumsýningin hjá Leikfélagi Reykjavíkur.   Á sama tíma kynnir Leikhúsbarinn nýjan smáréttamatseðil sem mun veita leikhúsgestum meiri fjölbreytni í matarvali en áður.

Bandalag íslenskra leikfélga sendir Leikfélagi Reykjavíkur sínar bestu afmæliskveðjur.