Rosalegt uppistand verður í Hafnarhúsinu þann 7. febrúar kl. 21:00 þegar gríngengið Hjólastólasveitin og hin landsþekkta hljómsveit Hundur í óskilum rúlla á svið og stíga á stokka. Farið verður með frumsamið og hárbeitt grínefni og flutt verða íslensk þjóðlög og erlendir slagarar á svo kostulegan hátt að seint gleymist. Kynnir er Ágústa Skúladóttir.

Hjólastólasveitin er skipuð meðlimum Halaleikhópsins og var stofnuð eftir námskeið í uppistandi sem Ágústa Skúladóttir hélt hjá leikfélaginu sl. haust. Sveitin hefur komið fram m.a. á Stuttverkahátíðinni Margt smátt í Borgarleikhúsinu og einnig fór hún í túr til Akureyrar þar sem hún kom fram á nokkrum stöðum og vakti hvarvetna mikla athygli og kátínu fyrir beitan og ósérhlífin húmor. Eða eins og gagnrýnandi Margs smás, Harpa Arnardótir sagði, „Uppistand í hæsta gæðaflokki – Eðalhúmor, gæðaleikur, algjör snilld!“

Tvímenningana í Hundi í óskilum þarf ekki að kynna svo það verður ekki gert hér. Þó má vitna í orð grunnskólakennara nokkurs í Njarðvíkurskóla sem sagði um þá: „Strákarnir í hundinum eru bæði ógeðslega skemmtilegir og geðveikt sætir“.

Ekki missa af óborganlegri skemmtan Hjólastólasveitarinnar í tengsum við List án landamæra á VETRARHÁTIÐ.

Aðgangur er ókeypis.

 {mos_fb_discuss:2}