Emil í Kattholti er engum líkur og er gríðarlega vinsæll. Nú hafa yfir 1900 gestir komið í gamla Samkomuhúsið á Húsavík og séð hann festa höfuðið í súpuskál, hífa Ídu systur sína upp í flaggstöng og aðstoða Línu vinnukonu í tannvandræðum. En þess má geta að íbúafjöldi Húsavíkur er um 2400. Sýningarnar hjá Leikfélagi Húsavíkur eru orðnar 20 og um næstu helgi, 10. og 11. janúar eru síðustu sýningar fyrirhugaðar. Þær hefjast báðar klukkan 16. Þeir sem ekki hafa enn séð Emil ættu því að hringja í síma 464-1129 og panta sér miða. Það verður enginn svikinn af heimsókn í Kattholt, þar ríkir ávallt mikil gleði þó að skammarstrikin séu sjaldnast langt undan. Það eru þau Patrekur Gunnlaugsson og Ragnheiður Diljá Káradóttir sem leika þau systkin Emil og Ídu.