Fjórir hjólastólar ásamt fríðu föru-nauti, MU-MÚ, Rampusi og Stúfi hinum eina sanni sem neitar að fara til fjalla, leggja land undir fót og herja á Selfyssinga og nærsveitarmenn með sínu ærlega og frumsamda gríni í janúarbyrjun 2009. Uppistandararnir eru fjórir fjörugir einstaklingar sem nota allir hjólastól, á alveg einstakan hátt! Þeir verða með uppistand eða sitdown og segja frá persónulegri og ópersónulegri reynslu af því að ferðast um á fjórum hjólum í landi tækifæranna. Um áskoranir í lífinu, huglægar sem hlutbundnar hindranir, ástina, ferðaþjónustu fatlaðra, geimverur, forseta lýðveldisins, alkahólsjúka hamstra, Perkúlahjónin í Finnlandi, tilskipanir og kvaðir Evrópu sambandsins, bónorðin tíu, afrakstur ástarviku Bolvíkinga, af fötluðum pólitíkusum…

Hvenær eiga Selfyssingar von á þessum hjólastólum í bæinn? Þegar jólin hafa gengið um garð, jólaskrautið er farið í kassa og drunginn og tómleikinn fara á stjá og vömbin er full af keti, kökum, karamellum, mandarínum og öli. Í janúarbyrjun er tilhneiging hjá landanum að  rjúka á hlaupabrettið og kaupa sér árskort í líkamsræktarstöð sem er gott mál en HJÓLASTÓLASVEITIN er með ódýra lausn á því að ná af sér jólamatnum. Þú slærð tvær flugur í einu höggi með því að hlæja duglega svo að skvapið hristist til og frá. Súrefnismettun eykst við hláturrokur, lundin léttist, vöðvar styrkjast í andlitinu sem og á maganum, rassi og lærum. Hristum upp í okkur, sitjum og stöndum saman, höfum gaman með því að koma saman í litla Leikhúsinu á Selfossi laugardaginn 10. janúar næst komandi. Látum jólaskvapið breytast í sixpakk á vömbinni með hlátri. Sýningin hefst klukkan 20:30, miðaverð er 1000 kr. og miðapantanir í síma 695-3631

Um Hjólastólasveitina:

Þann 11. janúar 2008 varð HJÓLASTÓLASVEITIN sjálfstætt félag þar sem tilgangur félagsins er að skemmta fólki með uppistandi víðs vegar, innan lands sem utan. Hún vekur athygli á málefnum hreyfihamlaðra og annarra fatlaðra í samfélaginu og eflir heilsu allra landsmanna með hlátri. Á því eina ári sem HJÓLASTÓLASVEITIN hefur starfað hefur hún komið fram fimmtán sinnum og skemmt rúmlega 1573 manns, m.a. á Vetrarhátíð 2008, í Iðnó og á Akureyri. Áhorfendur hafa verið á mjög breiðum aldri og skemmt sér vel. Ljóst er að þetta framtak er algjör nýlunda og frumkvöðlastarfsemi.

{mos_fb_discuss:2}