Laugardaginn 6. júní frumsýnir Leikhópurinn Nýja Ísland farsann Við borgum ekki! Við borgum ekki! eftir Nóbelsskáldið Darío Fo á Nýja sviði Borgarleikhússins. Leikstjóri er Þröstur Leó Gunnarsson. Þetta er drepfyndinn og hárbeittur gamanleikur um það sem gerist þegar neyðin kennir nakinni konu að spinna lygavef.
Úti er órói í almenningi enda hefur allt hækkað upp úr öllu valdi á sama tíma og verið er að skera niður og segja upp fólki. Konurnar taka málin og matinn í sínar hendur og meðan lögreglan leitar þeirra sem hafa fengið sér vörur með 100% afslætti, hefur frjósemi borgaranna aukist með dularfullum hætti þannig að allar götur eru fullar af „óléttum“ konum á öllum aldri. Þegar sérsveitarmaður reynir að fletta ofan af hinni dularfullu frjósemi verður hann sjálfur óléttur.
Hér er á ferðinni splunkuný útgáfa af þessum frábæra gamanleik sem hefur verið færður til Íslands í dag í þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur og staðfærslu hópsins. Dario Fo er ítalskur og fæddur 1926. Hann fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1997. Fo hefur alla sína ævi verið mjög pólitískur og jafnan tekið málstað þeirra sem minna mega sín. Sá listamaður sem hvað mest áhrif hefur haft á höfundaferil Dario Fo er eflaust kona hans Franca Rame sem á drjúgan þátt í öllum leikverkunum auk þess að hafa leikið aðalhlutverk í mörgum frumuppfærslum þeirra.
Fo er mikill andstæðingur kirkjunnar og henni var ekki skemmt þegar fréttist af upphefð þessa mikla meistara og kallaði hann fífl í málgagni páfastóls Osservatore romano. En þó páfastóll líti niður á fífl þá gera félagar í sænsku akademíunni það ekki og þegar tilkynnt var um verðlaunahafann sagði ritari nefndarinnar m.a. um Dario Fo: „Hann einn á tilkall til heiðurstitilsins hirðfífl [joculator], í bestu merkingu þess orðs. Með blöndu af gamni og alvöru opnar hann augu okkar fyrir valdníðslu og óréttlæti í þjóðfélaginu auk þess að benda á víðara sögulegt samhengi. Dario Fo er sérstaklega einlægur, háðsádeiluskáld sem eftir liggur margbrotið höfundarverk. Sjálfstæði hans og glöggskyggni hafa neytt hann til að taka mikla áhættu; hann hefur verið látinn gjalda þess þó að hann hafi jafnframt á sama tíma fundið fyrir gífurlegum viðbrögðum úr öllum áttum“.
Umsögn sænsku akademíunnar gladdi Dario Fo sem svaraði að bragði: „Hirðfífl er titill sem ég er ánægður með því það er svo fjarri hefðbundnu leikhúsi. Ég yfirgaf slíkan leikmáta við lok sjöunda áratugarins til að flytja leikrit mín í skólum, í félagsmiðstöðvum, utan dyra. Síðan á tímum Moliéres hefur leikari sem skrifaði eigin verk verið álitinn loddari. Með þessari verðlaunaveitingu fær aumingja Moliére líka uppreisn æru.“
Sýningin er samvinnuverkefni Nýja Íslands, Borgarleikhússins og Leikfélags Akureyrar og verður hún frumsýnd í Borgarleikhúsinu þann 6. júní KL. 20.00 og á Akureyri í september.
Leikmynd hannaði Stígur Steinþórsson en leikarar í sýningunni eu Halldór Gylfason, Ari Matthíasson, Jóhann G. Jóhannsson, Þrúður Vilhjálmsdóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir