Það brutust út fagnaðarlæti norður í landi þegar það fréttist að Rokksöngleikurinn Vínland hafði verið valinn til sýningar í Þjóðleikhúsinu. Menn ýmist urðu orðlausir eða brustu í grát eins og Óskarinn væri loksins í höfn. Af sjálfsögðu var umsvifalaust slegið upp fagnaðarpartíi og glaðst fram undir morgun eins og leikhópurinn gerir stundum. En núna nokkrum dögum seinna blasir alvaran við. Það þarf að æfa þetta uppá nýtt og pakka niður nokkrum tonnum af leikmynd og kalla saman 30 leikara og aðstoðarfólk, sem hafa leiklist að áhugamáli og eiga það allir sameiginlegt að hafa margt annað að gera en að æfa og sýna leikrit um hábjargræðistímann.
Tónlistin í verkinu er eftir Helga og hljóðfæraleikarana. Það var ákveðið alveg frá upphafi að undirleikur á sýningum væri á bandi og þannig var það allt til loka sýningartímans þegar það var ákveðið að hafa sérstaka stjörnusýningu með þátttöku hljómsveitarinnar. Eftir það var ekki aftur snúið, svo hljómsveitin mun í eigin persónu sjá um að halda uppi trukkinu á sýningum það sem eftir er. Vínlandið var sýnt 18 sinnum í Freyvangi í Eyjafjarðarsveit og síðustu sýningar voru í apríl. Verkið hlaut góða dóma nema hjá gamalli konu sem sat með puttana í eyrunum alla sýninguna. Hún kunni ekki að meta tónlistina.
Sem sagt Vínland var valið athyglisverðasta áhugleiksýning ársins af valnefnd Þjóðleikhússins. Í umsögn nefndarinnar segir meðal annars að það sé hreint frábær hugmynd hjá Helga Þórssyni og Freyvangsleikhúsinu að setja á svið rokksöngleik byggðan á víkinga-arfleið okkar Íslendinga… svo hetjur víkingatímans birtast okkur sem þúsund ára gamlar rokkstjörnur.
Sýnt verður í þjóðleikhúsinu þann 12. júní og ákveðið hefur verið að hafa aukasýningar í Freyvangi 4. og 5. júní.