Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga auglýsir:

Ljósanámskeið, kennari Egill Ingibergsson

Námskeiðið er fullbókað og 3 á biðlista kl. 9.20 þann 9. janúar!

Haldið í Listaháskóla Íslands, Sölvhólsgötu 13, 101 Reykjavík, dagana 23. – 25. janúar og 14. og 15. febrúar 2009. Hádegishlé og kaffi eftir því sem við á.
Þátttökugjald er 29.800.- á mann fyrir báðar helgarnar.
Kennsla er í formi fyrirlestra, sýnikennslu, umræðna og verklegra æfinga.
Hámarksfjöldi nemenda er 12.

Skráning stendur yfir til 10. janúar á netfangið info@leiklist.is

Námskeiðið er ætlað byrjendum og þeim sem vilja auka við grunnþekkingu sína í vinnu við lýsingu í leikhúsi.
Ekki eru gerðar sérstakar forkröfur til nemenda en farið verður yfir mikið námsefni á stuttum tíma og nauðsynlegt að nemendur fylgist vel með og taki góðar nótur.
Nemendur skila stuttri greinargerð til kennara í tölvupósti eftir námskeiðið.
Þátttakendur eru beðnir að hafa meðferðis upplýsingar um ljósakerfi síns leikfélags á eyðublaði sem sent verður skráðum þátttakendum.

Markmiðið með námskeiðinu er að þátttakendur öðlist grunnþekkingu á notkun algengasta ljósabúnaðar í leikhúsum. Fái innsýn í notkunar- og öryggisatriði sem þessu tengjast, virkni rafmagns og fleira.

Egill Ingibergsson, leikmynda- og ljósahöfundur er tæknistjóri leiklistardeildar Listaháskóla Íslands og formaður Félags leikmynda- og búningahöfunda.

Egill varð stúdent frá Flensborgarskóla 1980, stundaði nám í mannfræði við Háskóli Íslands,1983 – 1985 og í rafeindavirkjun við Iðnskóla Hafnarfjarðar/Iðnskóla Reykjarvíkur 1987 – 1989.
Egill hefur lýst ótölulegan fjölda leiksýninga frá árinu 1983 til dagsins í dag, bæði hjá atvinnu- og áhugaleikhúsum. Einnig hefur hann gert myndbandsverk, hannað hljóð, leikmyndir og búninga fyrir fjölda leiksýninga.

Egill fékk Grímuna fyrir lýsingu ársins 2004, sýningin var Meistarinn og Margaríta í uppsetningu Hafnarfjarðarleikhússins. Einnig fékk hann tilnefningu til Grímunnar 2006 fyrir lýsingu ársins fyrir sýninguna Forðist okkur í uppsetningu Nemendaleikhúsissins.

 

Kennsluáætlun:

Fyrri helgi 23. – 25. janúar


Föstudagur 23. janúar:
Kl. 19.00-22.00 – Fyrirlestur, sýnikennsla.

Farið yfir uppbyggingu og virkni ljósakerfa og hvernig einingar tala saman. Lauslega farið inná svið rafmagnsfræða til að nemendur átti sig á stærðum, álagi á dimmera, sverleika kapla og ýmsum hættum sem notkun á miklu rafmagni fylgja.

Laugardagur 24. janúar:
Kl. 09.00-17.00 – Fyrirlestur, sýnikennsla, verklegar æfingar.

Farið yfir virkni Express og Expression ljósaborða frá ETC. Helstu tegundir ljóskastara skoðaðar, hvernig þeir vinna, hvað þeir eru hentugastir í o.fl. Einnig skoðaðir aukahlutir fyrir mismunandi ljós.
Tvær stuttar verklegar æfingar í vinnu á ljósaborði. Unnið í þremur fjögurra manna hópum.

Sunnudagur 25. janúar:
kl. 09.00-15.00 – Fyrirlestur, sýnikennsla, verkleg æfing, umræður.

Farið verður yfir helstu öryggismál varðandi upphengingu tækja og aðbúnaðar í leikhúsum er það varðar.
Stutt verkleg æfing í vinnu með ljós. Unnið í þremur fjögurra manna hópum.
Í lokin verður offline hugbúnaður fyrir ljósaborð skoðaður lítillega og nemendur fá verkefni til úrlausnar fyrir seinni helgina.


Seinni helgi 14. og 15. febrúar


Laugardagur 14. febrúar:
Kl. 09.00-17.00 – Fyrirlestur, sýnikennsla, verklegar æfingar.

Unnið úr heimaverkefnum frá fyrri helgi.
Einfalt hreyfiljós skoðað og hvernig því er stjórnað frá ljósaborðinu.
Verklegar æfingar í hópum.

Sunnudagur 15. febrúar:
Kl. 09.00-15.00 – Umræður, verkleg æfing, fyrirlestur.

Upplýsingar um leikhús nemenda skoðaðar. Hvert leikhús skoðað lítillega og rætt út frá notkunarmöguleikum, hugsanlegum endurbótum og öryggismálum.
Verkleg æfing í hópum.
Stutt kynning á ShowControl og fyrirhuguðu námskeið síðar á þessu ári í samþættingu tækni í leikhúsi.

Athugið að skrá ykkur á info@leiklist.is fyrir 10. janúar!