eftir Messíönu Tómasdóttur, sviðslistakonu

Nú er ár barnaleikhúss og því er þetta ávarp á alþjóðlegum degi leiklistar helgað börnum. Það hefur verið lögð mikil áhersla á færni í uppeldi barna og er það vel, en á móti þurfum við að styrkja andlega þáttinn í uppeldi þeirra og þar gegna listir lykilhlutverki, ásamt trúnni á fegurð, kærleika og réttlæti.

Í leiklistinni sameinast allar listgreinar og á hverjum tíma iðka listamenn samtímalistir. Við segjum sögur, fullorðins- og barna, sem eru skrifaðar í dag. Við njótum myndlistar sem er sköpuð í dag og við njótum nútímadanslistar. Því miður njótum við síður nútímatónlistar, þ.e. þeirrar tónlistar, sem tónskáld okkar hafa samið eftir langt og strangt tónlistarnám. Hún er samt tónlistin sem er samin fyrir okkur hér og nú, sem speglar okkar tíma. Hún á heima í óperuhúsunum og hún á heima í leikhúsunum eins og önnur samtímalist. En það ríkja vissir fordómar gagnvart nútímatónlist og þess vegna hefur meirihluti fólks ekki uppgötvað fegurð hennar.

En börnin, það hefur sýnt sig að börnin taka við nútímatónlist í leiksýningum og barnaóperum með sama opna huga og annarri tónlist. Þarna er uppeldistækifæri. Við megum ekki slá  af listrænum kröfum þegar börn eru annars vegar. Listir eru krefjandi en börn vilja líka fá að spreyta sig. Þau eru opin og skapandi. Þau þurfa að fá bitastæða næringu, andlega sem líkamlega. Við fullorðna fólkið sköpum smekk barnanna m.a. með þeim listflutningi sem þeim er boðið upp á. Við skulum skapa þeim meiri aðgang að leikhúsinu í stað skyndimenningar eins og teiknimyndum í barnasjónvarpi. Þar er flóð af framboði en sannarlega mismikil gæði. Stuðlum að því að börnin vaxi upp sem andlega þroskaðar manneskjur sem koma auga á fegurð samtímans.

En auðvitað þarf nútímalistin í barnaleikhúsi að vera við hæfi barnanna. Í fullorðinsleikhúsi speglum við heiminn og notum til þess sterkar andstæður. En sterkar andstæður vekja spennu og ótta hjá börnum. Börnin þurfa á list að halda sem kemur frá hjartanu, list sem styður við jákvæðar hugmyndir og eykur með þeim skilning og samkennd. Þetta getur leikhúsið gefið þeim.

Brúðuleikhúsið er sterkur miðill, hvort sem er í fullorðins- eða barnaleikhúsi. Brúðan, sem vekur væntumþykju vegna smæðar sinnar, hluturinn, sem er gæddur lífi og gríman, með sína sterku tjáningarmöguleika, eru galdratæki þegar kemur að því að nálgast barnssálina. Brúðuleikhúsið hentar líka til forvarna og verndar, til að endurvekja traust til lífsins. Í hendi hins særða barns getur brúðan verið einlæg rödd barnsins sjálfs: e.t.v óttaslegin en alltaf hreinskilin.

Nú vill svo sérkennilega til, á ári barnaleikhússins, að mjög fáar barnaleiksýningar eru frumfluttar.

Fyrir aðeins fáeinum árum sýndu margir leikhópar barnaleiksýningar sínar ýmist í opinberu rými eða í skólum og leikskólum og gegndu þannig mikilvægu uppeldishlutverki. Á þeim tíma stóð Reykjavíkurborg fyrir kynningu á þeim barnaleiksýningum sem völ var á fyrir skóla og leikskóla á stór-Reykjavíkursvæðinu. Þar var úr mörgu að velja því barnaleikhúsið stóð í blóma. En hinn kaldranalegi veruleiki í dag er sá að stöðugt minni styrkir renna til barnaleikhússins, þannig að opinberir styrkir til barnaleikhúsa eru í engu samræmi við hlutfall barna meðal þjóðarinnar. Þess vegna hafa margir leikhópar sem áður gerði leiksýningar fyrir börn gefist upp og fáir nýir verða til. Á hinum Norðurlöndunum eru styrkir nær því að vera í samræmi við hlutfall barna meðal þjóðanna og þar er starf barnaleikhúsa öflugt.

Leikhúsið er mannbætandi þegar það er best, þegar það eflir með áhorfendum, á hvaða aldri sem þeir eru, trúna á hugtök eins og fegurð, kærleika og réttlæti. En vegur barnaleikhússins verður að vaxa svo um muni ef okkur á að takast að kynna það besta í list hvers tíma fyrir öllum aldurshópum leikhúsgesta og veita þannig djúpum og sterkum tilfinningum þeirra næringu.

Um höfundinn
Messíana Tómasdóttir stundaði nám í myndlist, textíl, leikmyndateiknun og strengjabrúðulist í Danmörku, Frakklandi og við Myndlista- og handíðaskóla Íslands.Messíana er höfundur að leikmyndum og búningum í yfir sjötíu leiksýningum fyrir leikhús, óperur og sjónvarp hér heima, í Danmörku, Færeyjum, Finnlandi og Bandaríkjunum.

Messíana hefur, auk samsýninga, haldið um fimmtán einkasýningar á tví- og þrívíðum myndverkum sem aðallega eru unnin í pappír og plexígler, en þar sem eitt aðal viðfangsefnið er liturinn sem slíkur.
Messíana hefur flutt fyrirlestra og haldið námskeið um litafræði og brúðuleikhús hér heima og víða erlendis. Auk fjölda starfs- náms- dvalar- og ferðastyrkja var Messíana valin Borgarlistamaður Reykjavíkur 1982 og Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2001.

Messíana rekur eigið leikhús, Strengjaleikhúsið, sem hefur pantað og frumflutt sjö íslenskar nútímaóperur auk annarra tónlistar- og brúðuverka. Mörgum af uppfærslum Strengjaleikhússins hefur verið boðið í sýningarferðir erlendis og óperur þess hafa verið tilnefndar til tónlistarverðlauna.