Í október stendur Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands fyrir námskeiði sem ber yfirskriftina Úr heimi leiksviðslistanna. Fyrirlesari er Jón Viðar Jónsson leiklistarfræðingur. Á námskeiðinu er farið yfir leiklistarsöguna frá fyrstu heimildum um hana, allt til okkar daga. Fyrirlestrarnir verða á mánudögum kl. 20.15, skráningarfrestur er til 27. september 2010 og hægt er að skrá sig hér.

Er leiklistin sprottin upp úr helgisiðum og iðkun trúarbragða? Hvers vegna er kór í grískum harmleikjum? Hvernig gat kaþólska miðaldakirkjan bæði verið á móti leiklistinni og með henni? Hvers vegna voru engar leikmyndir í leikhúsi Shakespeares? Hvaðan koma fjarvíddarleiksviðið og leiksviðsramminn? Hver er hinn dularfulli Harlekin? Fóru átjándualdarmenn aðallega í leikhúsið til að gráta? Hví hefur nítjánda öldin verið kölluð öld hinna miklu leikara? Þetta eru dæmi um nokkrar þeirra spurninga sem upp koma þegar við hverfum á vit liðinna kynslóða leikara, leikskálda – og áhorfenda.

Heimur sviðslistanna er ótrúlega fjölbreyttur og heillandi. Í tímans rás hefur leiklistin tekið á sig hinar margbreytilegustu myndir: Forn-grísk leiklist og rómversk var allt öðruvísi en sú sem hefur þróast á Vesturlöndum frá endurreisnartímanum; aldagömul leikform Austurlanda eru gerólík þeim vestrænu. Miðaldaleikhúsið var miklu auðugra en margir halda, þó að það væri borið uppi af áhugamönnum. Óperan og ballettinn verða til sem sjálfstæðar listgreinar upp úr tilraunum endurreisnarinnar, en brúðuleikhúsið á rætur aftur í grárri forneskju. Á tuttugustu öld hefur leiklistin fundið sér farvegi í nýjum miðlum, kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi, en spádómar um að þeir myndu ganga að lifandi leiklist dauðri hafa ekki ræst. Þessir miðlar hafa aðeins bætt við nýjum dráttum í myndina, en ekki komið í staðinn fyrir mót leikara og áhorfenda á líðandi stund. Þegar vel tekst til býr það mót yfir töfrum sem fátt verður við jafnað.

Á námskeiðinu verður farið hratt yfir þessa sögu í máli og myndum. Leitast verður við að kynna helstu leikform sögunnar og stíltegundir með hjálp mynda og uppdrátta af leiksviðsgerðum, leikurum í hlutverkum og ýmsum öðrum gögnum sem leiklistarsagan byggir á tilveru sína sem fræðigrein. Stundum er sagt að leiklistin sé list andartaksins, deyi um leið og hún fæðist, og því verði fátt sagt með vissu um það sem gerðist í leikhúsum fyrri tíðar. Markmið námskeiðsins er ekki síst að sýna fram á að það er mikill misskilningur. Leiklistarsagan getur veitt mikilsverða innsýn í hugskot fyrri tíðar manna, auk þess sem hún hefur oft orðið leikhúsi síðari tíma frjósöm uppspretta hugmynda og nýrra leiða.

Kennsla / umsjón:
Jón Viðar Jónsson, fil.dr., leiklistarfræðingur

Hvenær:
Mán. 4., 11., 18. og 25. okt. kl. 20:15 – 22:15 (4x)

Verð: 16.900 kr.

{mos_fb_discuss:3}