Leikfélagið Sýnir æfir nú af kappi nýja leikgerð af riddarasögunni um Tristram og Ísönd, þeirri óbærilegu ást sem þau báru hvort til annars og þeim grimmu örlögu sem stíuðu þeim í sundur. Leikstjóri er Ármann Guðmundsson en hann semur einnig leikgerðina ásamt Guðrúnu Sóley Sigurðardóttur. Sýnt verður í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði og verður frumsýning aðra helgina í september.

Sagan af Tristram og Ísönd er ein þekkasta ástarsaga miðalda en hún segir frá riddaranum Tristram, systursyni Markis Englandskonungs, sem fengið er það verkefni að vinna ástir Ísöndar Írlandsprinsessu fyrir hönd frænda síns. Ekki vill þó betur til en svo að Tristram og Ísönd fella hugi saman og forboðið ástarsamband þeirra hefst, þrátt fyrir að Ísönd giftist Markis. Öfl innan hirðarinn ar sitja að svikráðum og sjá sér leik á borði að notfæra sér ástandið sér til framdráttar.

Upphaflega stóð til að þetta yrði útileiksýning og sýnd í Elliðaárdalnum í sumar en af ýmsum orsökum var ákveðið að flytja sýninguna inn. Leikritið er mikið sjónarspil, mikið lagt í alla umgjörð og tónlist spilar veigamikið hlutverk í sýningunni. Ljósahönnuður er Benedikt Þór Axelsson, búninga hannar Dýrleif Jónsdóttir, leikmuni gerir Jón Örn Bergsson og hannar hann einnig leikmynd ásamt Ármanni Guðmundssyni. Tónlistin í verkinu er samin af leikhópnum, leikstjóra og Birni Thorarensen sem jafnframt hefur yfirumsjón með útsetningum.

Ármann Guðmundsson hefur leikstýrt hátt í annan tug leikrita hjá fjölmörgum áhugleikfélögum um allt land. Hann hefur jafnframt skrifað á þriðja tug leikrita sem sýnd hafa verið bæði í atvinnu- og áhugaleikhúsi og jafnframt samið tónlist fyrir mörg þeirra. Guðrún Sóley Sigurðardóttir hefur m.a. samið leikrit fyrir Leikfélag Hafnarfjarðar og sigrað í örleikritasamkeppni Þjóðleikhúsins.

Leikfélagið Sýnir var stofnað af ofvirkum áhugaleikurum sem sóttu fyrsta ár Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikara árið 1997. Síðan hefur félagið sett upp á annan tug verka með sérstaka áherslu á útileiksýningar og hefur þá gjarnan farið í leikferðir út á land. Á meðal verka sem félagið hefur sett upp eru Draumur á Jónsmessunótt, Mávurinn og Stútungasaga.

{mos_fb_discuss:2}