Þá sömu helgi, eða sunnudaginn 28. ágúst, verður fyrsta sýning leikársins á hinu geysivinsæla barnaleikriti Ballinu á Bessastöðum eftir Gerði Kristnýu og þann 2. september hefjast aftur sýningar á söngleiknum Bjart með köflum eftir Ólaf Hauk Símonarson. Báðar þessar glaðværu og skemmtilegu sýningar nutu mikilla vinsælda á síðasta leikári og koma til með að prýða dagskrá leikhússins langt inn í svartasta skammdegið. Einnig bjóðum við upp á örfáar aukasýningar á Öllum sonum mínum sem sló í gegn á síðasta leikári og hinni sívinsælu sýningu Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni.
Fyrsta frumsýning haustsins verður í Kassanum um miðjan september á nýju verki eftir margverðlaunaðan skáldsagnahöfund, Auði Övu Ólafsdóttur, en þetta er hennar fyrsta leikrit og nefnist Svartur hundur prestsins.
Haustsmellurinn á Stóra sviðinu verður ný endurfrumsýning á gamanleiknum Listaverkinu eftir Yasminu Reza í leikstjórn Guðjóns Pedersens, með þeim Hilmi Snæ Guðnasyni, Ingvari E. Sigurðssyni og Baltasar Kormák í hlutverkum, en sýningin naut gífurlegra vinsælda á sínum tíma. Það verður spennandi að sá hvernig þessir þrír listamenn nálgast hlutverkin nú, fjórtán árum síðar, og ekki síður að sjá Baltasar Kormák aftur á sviði, en hann hefur undanfarinn áratug einbeitt sér að mestu að leikstjórn, bæði í leikhúsi og kvikmyndum.
Hið kynngimagnaða verk Hreinsun eftir Sofi Oksanen kemur á svið í október, í leikstjórn Stefáns Jónssonar, og gengur Margrét Helga Jóhannsdóttir til liðs við Þjóðleikhúsið í þeirri sýningu.
Hápunktur leikársins er fyrir mörgum jólasýning Þjóðleikhússins, sem er að þessu sinni ný leikgerð Kjartans Ragnarssonar byggð á Heimsljósi eftir Halldór Laxness. Síðasta þrekvirki Kjartans af svipuðu tagi á fjölum Þjóðleikhússins var Sjálfstætt fólk í magnaðri sviðsetningu fyrir rúmum áratug.
Stórsýning ársins verður ný sviðsetning á Vesalingunum, einum magnaðasta söngleik allra tíma, þar sem frábær saga og heillandi tónlist skapa listaverk sem á sér vart hliðstæðu á leiksviði. Í aðalhlutverkinu verður Þór Breiðfjörð, en hann er eini Íslendingurinn sem hefur sungið það hlutverk á West-End í London.
Eftir áramót verða leikin í Kassanum tvö af meistaraverkum tuttugustu aldarinnar, Dagleiðin langa eftir Eugene O’Neill í leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur og Afmælisveislan eftir Harold Pinter í leikstjórn Baltasars Kormáks.
Börnin fá líka veglega dagskrá að vanda bæði á Stóra sviðinu og í Kúlunni, litla barnaleikhúsi Þjóðleikhússins. Má þar nefna frumsýningu á nýju leikriti eftir Áslaugu Jónsdóttur sem hún byggir á geysivinsælum Skrímslabókum sínum.
Fjöldi spennandi samstarfsverkefna prýðir einnig dagskránna, þar sem innlend frumsköpun er í forgrunni. Má þar nefna nýja leikgerð byggða á Gæludýrunum eftir Braga Ólafsson, gestasýningu Þorleifs Arnar Arnarssonar á Pétri Gaut frá Sviss, leikgerð Aldrei óstelandi af Svartfugli og frumlegar brúðu- og dansleikhússýningar. Breytingar hafa verið gerðar á Leikhúskjallaranum, sem verður í vetur vettvangur margvíslegra skemmtilegra viðburða en þar verða meðal annars einleikir, uppistand og söngdagskrár.
Kortasala er þegar hafin og fer vel af stað, enda ríflegur afsláttur í boði fyrir þá sem tryggja sér sæti fyrirfram og úrvalið fjölbreytt og metnaðarfullt.
{mos_fb_discuss:3}