Leikárið í Þjóðleikhúsinu er hafið af fullum krafti. Æfingar standa yfir á margvíslegum verkefnum víðsvegar um húsið. Kynningarbæklingi Þjóðleikhússins var dreift í öll hús á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri en hægt er að kynna sér leiksýningar vetrarins hér.
Sala á leikhúskortum Þjóðleikhússins er nú í fullum gangi. Enn fleiri kort hafa selst en á sama tíma og í fyrra, en það var metár í kortasölu Þjóðleikhússins. Stefnir því allt í að nýtt met verði slegið.
Síðasta leikár var aðsóknarmesta leikár Þjóðleikhússins í áraraðir, og von er á að ekkert lát verði á aðsókn í leikhúsið í vetur, enda leikárið óvenju fjölbreytt og spennandi.
Fyrir mörgum hlýtur uppsetning Þjóðleikhússins á einum vinsælasta söngleik allra tíma, Vesalingunum, að verða hápunktur leikársins, en fjöldi framúrskarandi leikara, söngvara og tónlistarmanna tekur þátt í sýningunni. Jólasýningar Þjóðleikhússins á Heimsljósi í meðförum Kjartans Ragnarssonar er einnig beðið með eftirvæntingu. Þeir sem misstu af hinum geysivinsæla gamanleik Listaverkinu í Þjóðleikhúsinu fyrir fjórtán árum, með þeim Baltasar, Ingvari og Hilmi Snæ, ættu ekki að láta það henda sig aftur, og fullvíst er að þeir sem sáu verkið á sínum tíma vilja upplifa þessa leikhúsbombu að nýju. Leikhúsið sýnir einnig afar áhrifamikið nýtt verk eftir Sofi Oksanen, Hreinsun, en hún hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs á síðasta ári.
Í Kassanum sýnir Þjóðleikhúsið fyrsta leikrit hins margverðlaunaða höfundar Auðar Övu Ólafsdóttur, Svartan hund prestsins, og tvær af perlum leikbókmennta 20. aldarinnar, Dagleiðina löngu eftir Eugene O’Neill og Afmælisveisluna eftir Pinter.
Fjöldi annarra sýninga verður á boðstólum, fyrir unga sem aldna, og er það nýlunda að sýndar verða sýningar af ýmsu tagi í Leikhúskjallaranum í vetur, nú fyrst með hinum óborganlegu Pörupiltum og Viggó og Víólettu.
Það verður því nóg um að vera í Þjóðleikhúsinu í vetur.
(Fréttatilkynning frá Þjóðleikhúsinu)