Stuttverkahátíðin Margt smátt verður haldin í Borgarleikhúsinu 5. maí 2006 í tengslum við aðalfund Bandalags íslenskra leikfélaga sem haldinn verður í Félagsheimili Seltjarnarness 6. og 7. maí 2006.
Hátíðin er opin öllum aðildarfélögum Bandalags íslenskra leikfélaga. Umsóknareyðublöð eru nú tiltæk hér vefnum.
Stuttverkahátíðin Margt smátt verður haldin í Borgarleikhúsinu 5. maí 2006 í tengslum við aðalfund Bandalags íslenskra leikfélaga sem haldinn verður í Félagsheimili Seltjarnarness 6. og 7. maí 2006. Sækja þarf um fyrir 1. apríl á umsóknareyðublöðum sem nálgast má með því að smella á Margt smátt grímuna hér til hægri. Þann 5. apríl verður svo opinberað hvaða þættir verða sýndir á hátíðinni.
Hátíðin er opin öllum aðildarfélögum Bandalags íslenskra leikfélaga.
Stefnt verður að því að tímalengd hátíðarinnar í heild verði ekki meira en 3 klst. með tveimur hléum og að hver sýning sé að hámarki 15 mín. Ef mjög margar umsóknir berast og séð verður að tímaramminn haldi ekki, verða þau félög sem sækja um að koma með margar sýningar á hátíðina beðin að fækka þeim.
Tveir gagnrýnendur munu fjalla um sýningar hátíðarinnar og sú gagnrýni mun birtast á Leiklistarvefnum. Hátíðin verður einnig tekin upp á myndband og leikskrá verður útbúin.
Samvera hátíðargesta verður í Borgarleikhúsinu að hátíð lokinni. Þar verður opinn bar og mögulega hægt að fá eitthvað létt að borða.
Veitt verður viðurkenning fyrir „Sýningu hátíðarinnar“, þrjár sýningar verða tilnefndar.
Þátttakendum hátíðarinnar verður boðið að kaupa sig inn á hátíðarkvöldverð og dansleik með aðalfundarfulltrúum í Félagsheimili Seltjarnarness laugardagskvöldið 6. maí. Miðaverð er 3.500 kr.
Leikarar, leikstjórar, tæknimenn og aðrir aðstoðarmenn leikhópanna fá frítt inn á hátíðina. Höfundar leikþáttanna fá senda boðsmiða frá Borgarleikhúsinu (þ.e.a.s. ef þeir búa á Íslandi). Miðaverði fyrir almenna áhorfendur verður stillt í hóf.
Leikfélög geta sótt um ferðastyrki til Menningarsjóðs Félagsheimila.
Í framkvæmdanefnd hátíðarinnar sitja Ármann Guðmundsson, Ása Hildur Guðjónsdóttir og Ólöf Þórðardóttir.