Sýningar á barnaleikritinu Hættuför í Huliðsdal sem var sýnt fyrir troðfullu húsi á síðasta leikári hefjast á ný í Kúlunni þann 20. desember næstkomandi. Aðeins er boðið upp á örfáar sýningarhelgar. Áhorfendur og gagnrýnendur á öllum aldri lofuðu sýninguna sem var tilnefnd til Grímuverðlaunanna sem barnasýning ársins og m.a. sögð „í senn þrælspennandi, bráðskemmtileg og hjartnæm“. Hættuför í Huliðsdal er sérstaklega ætluð ævintýraglöðum leikhúsgestum á grunnskólaaldri.

Höfundur er Salka Guðmundsdóttir, leikstjóri er Harpa Arnardóttir og leikarar í verkinu eru þau Aðalbjörg Árnadóttir, Esther Talía Casey, Guðmundur Ólafsson og Hilmir Jensson. Miðasala er hafin á midi.is, leikhusid.is og í miðasölusíma Þjóðleikhússins, 551-1200.