Laugardaginn 22. september kl. 20:00 frumsýnir Stoppleikhópurinn Óráðna manninn, nýtt verk eftir Þorvald Þorsteinsson, í Tjarnarbíói. Viðfangsefnið verksins er í senn sígilt og óvenjulegt; nefnilega leit mannsins að réttu útgáfunni af sjálfum sér inni í öllum þeim aragrúa hlutverka sem hann verður að leika á lífsleiðinni. Uppselt er á frumsýningu en önnur sýning verður sunnudaginn 23. september kl. 20.00. Eftir það verður sýningin aðeins sýnd sem ferðasýning. Leikstjóri er Sigrún Sól Ólafsdóttir.
Verkið fjallar um leikarahjón sem virðast hafa lokast inni í eigin leikhúsi. Eiginmaðurinn hefur ekki lengur áhuga á að leika en er því áhugasamari um alls kyns leikmuni og búninga. Frúin, sem jafnframt er leikskáldið og leikstjórinn í þeirra lífi, getur ómögulega gert upp við sig í hvaða hlutverki hún njóti sín best og í hvaða búningi. Þegar ungur ljósmyndari birtist í þeim tilgangi að mynda frúna fyrir tímaritsviðtal fara hinir undarlegustu hlutir að koma í ljós, enda alls ekki á hreinu á hvers vegum hann er í raun og veru. Og mikilvægar spurningar byrja að skjóta upp kollinum: Hver er ekta og hver skáldaður í þessu verki? Hver er skrifaður af hverjum svona yfirleitt? Hvað verður um persónuna þegar leikritinu lýkur? Erum við kannski að taka þátt í fleiri leikritum en við kærum okkur um?
Leikarar sýningunni eru Katrín Þorkelsdóttir, Magnús Guðmundsson og Sigurður Eyberg Jóhannesson. Leikmynd og búninga gerir Þorvaldur Þorsteinsson sem jafnframt er höfundur verksins.
Stoppleikhópurinn var stofnaður árið 1995 með það að markmiði að sýna íslenskum börnum og unglingum heiminn í gegnum leikhúsið. Á þessum árum hefur leikhópurinn frumsýnt vel á annan tug nýrra íslenskra leikrita og leikgerða sem öll hafa að einhverju leiti fræðslu og forvarnarlegt gildi, um leið og þau skemmta og vekja áhorfendann til umhugsunar. Leikhópurinn er einnig ferðaleikhús sem getur sýnt verk sín hvar og hvenær sem er um allt land.