Leikfélag Sauðárkróks er komið vel á veg með æfingar á splunku-, flunku-, glænýju barnaleikriti sem heitir Alína. Leikritið er eftir Skagfirðinginn Stefán Sturlu Sigurjónsson og Valgeir Skagfjörð semur tónlistina. Stefán leikstýrir hópnum sjálfur og færist mikið í fang því leikendur verða yfir 30 talsins, þar af þrennir tvíburar hvorki meira né minna.
Leikritið fjallar um snótina Alínu sem missir fyrstu tönnina sína, en í staðinn fyrir að tannálfurinn komi með tannféð kemur tröllakóngurinn og rænir henni. Þannig lendir Alína í alskonar ævintýrum með tröllum, gnómum og álfum. Og hvernig skyldi það nú ganga allt saman? Hverjir eru vondir? Hverjir eru góðir? Kemst Alína heim aftur? Þessum spurningum verður ekki svarað fyrr en á frumsýningardegi í Bifröst 20. október og þá getið þið komið á sýninguna og keypt bókina um Alínu í leiðinni!