Steinunn Knútsdóttir hefur verið ráðin í stöðu deildarforseta leiklistar- og dansdeildar. Hún tekur við af Ragnheiði Skúladóttur, sem hefur stýrt deildinni allt frá stofnun hennar haustið 2000. Steinunn hefur að baki fjölþættan feril, bæði í námi og starfi. Hún lauk bakkalárnámi í guðfræði við Háskóla Íslands, stundaði leiklistarnám í Árósum, og lauk síðar meistaranámi í leiklistarfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester, Englandi. Hún er einnig með diploma í leikstjórn frá Scandinavisk Centrum för Utvikling af Teater.
Steinunn hefur unnið með ýmsum leikhúsum og sviðslistahópum í Danmörku, Englandi og á Íslandi, bæði sem leikari, höfundur og leikstjóri. Aðallega hefur hún numið land í framsæknum leikhúsum oft nátengdum dansi og myndlist og tekið þátt í mörgum rannsóknarverkefnum á sviði sviðslista, auk þess að skipuleggja ráðstefnur og hátíðir. Hún var um þriggja ára skeið listrænn ráðunautur Borgarleikhússins, og einnig um árabil annar listrænna stjórnenda Lab Loka sem hefur staðið fyrir rannsóknum og tilraunum á sviði sviðslista. Þá hefur Steinunn gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hönd leiklistarfólks, m.a. verið ritari Leiklistarsambands Íslands, setið í stjórn Norræna Leiklistarsambandsins, og verið formaður Félags leikstjóra á Íslandi frá 2008.
Steinunn er listrænn stjórnandi Áhugaleikhúss atvinnumanna og Netleikhússins Herbergi 408 sem var tilnefnt til Prix Europa, verðlauna evrópskra ljósvakamiðla í flokki nýmiðla árið 2010. Steinunn hefur verið stundakennari við leiklistar- og dansdeild Listaháskólans allt frá því deildin var stofnuð, og á jafnframt sæti í fagráði skólans.
Sex umsækjendur voru um starfið. Þriggja manna dómnefnd skipuð af stjórn skólans mat fimm þeirra hæfa til að gegna starfinu miðað við starfssvið og skyldur eins og starfið var auglýst af hendi skólans. Rektor ræður í starfið í samráði við stjórn skólans. Nýr deildarforseti tekur formlega til starfa í byrjun næsta skólaárs, 1. ágúst, en mun núna í vor vinna náið með fráfarandi deildarforseta og starfsmönnum deildarinnar við undirbúning næsta starfsárs.
{mos_fb_discuss:3}