Út er kominn hljómdiskurinn „Það besta við jólin“ eftir Þórunni Guðmundsdóttur. Diskurinn hefur að geyma fimmtán ný íslensk jólalög sem Þórunn hefur samið á síðustu árum. Þórunn hefur verið í leikfélaginu Hugleik frá árinu 1997 og hefur mikið af tónlistinni áður verið flutt á vettvangi félagsins. Þórunn hefur einnig samið mikið af tónlist og leikritum sem flutt hafa verið af Hugleik, t.d. söngleikinn Kolrössu sem sló rækilega í gegn árið 2002, leikritið Kleinur og styttri þætti.

Út er kominn hljómdiskurinn „Það besta við jólin“ eftir Þórunni Guðmundsdóttur. Diskurinn hefur að geyma fimmtán ný íslensk jólalög sem Þórunn hefur samið á síðustu árum. Þótt öll lögin séu eftir sama höfund eru þau mjög fjölbreytt og spanna allt frá klassískum kórlögum og djasssveiflu til laga með þjóðlegum tóni. Íslenska yfirbragðið er svo sterkt að stundum mætti halda að lögin séu gömul og rótgróin þjóðlög. Hér er því um að ræða skemmtilega viðbót við jólalagaflóruna, fimmtán ný rammíslensk jólalög.

bestavidjolin.jpgÞórunn hefur verið í leikfélaginu Hugleik frá árinu 1997 og hefur mikið af tónlistinni áður verið flutt á vettvangi félagsins. Þórunn hefur einnig samið mikið af tónlist og leikritum sem flutt hafa verið af Hugleik, t.d. söngleikinn Kolrössu sem sló rækilega í gegn árið 2002, leikritið Kleinur og styttri þætti. Fleira Hugleiksfólk kemur að disknum, Þórunn fær t.d. lánaða texta frá þeim Sævari Sigurgeirssyni og Þórunni Harðardóttur.

Mikill húmor einkennir textana, sem flestir eru frumsamdir af Þórunni sjálfri. Gerir hún menningararf íslensku þjóðarinnar að yrkisefni og skoðar þá einkum hinar spaugilegu og óútskýranlegu hliðar hans. „Þessi Grýla er hún dauð? – og dó hún út af rólum? Til hvers eiga könnur að standa upp á stólum? Og stýfir kisa börn úr hnefa á jólum? Jónas gefur svani sjö og síðan kýrnar átta. Ó, segðu mér hví Andrés var svona utangátta.“ Þá er fjallað um raunir
jólasveinanna í nútímanum, þar sem pottar eru þaktir teflonhúð, askar löngu horfnir og hurðir komnar með höggdeyfi. Þórunn dregur sömuleiðis dár að framtakssemi á heimilum landsmanna, þar sem tugir sorta eru bakaðir – bara fyrir börnin – og sú undarlega iðja er stunduð að stilla upp stigum handa músum.

Þórunn Guðmundsdóttir hefur doktorspróf í söng og kennir sönglist í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Tónlistarskóla Reykjavíkur. Flest laganna syngur hún sjálf, en við flutninginn nýtur hún aðstoðar samkennara sinna, Hjörleifs Valssonar fiðluleikara og Þrastar Þorbjörnssonar gítarleikara, sem og Birgis Bragasonar bassaleikara og Ástvalds Traustasonar píanóleikara.
Fyrrverandi nemendur Þórunnar, tenórarnir Eyjólfur Eyjólfsson og Bragi Bergþórsson syngja hvor sitt lagið. Þá flytur Kammerkór Hafnarfjarðar þrjú lög á disknum.

Þórunn gefur diskinn út sjálf, en um dreifingu sjá Tólf tónar. Hægt er að panta diskinn hjá Þórunni í netfanginu drtota@ismennt.is.