StepByStep leikhópurinn í London setur upp íslenska útvarpsverkið Spor, eða Moments, eftir Starra Haukson á leiklistarhátið í Crouch End í norður London í júní. Leikarahópurinn er alíslenskur og þýðing er í höndum Arons Trausta. Um sviðsútsetningu og leikstjórn sér sænski leikstjórinn, Maya Lindh.

Verkið fjallar um Andra sem hefur upplifað þungan missi og hefur að því er virðist misst allan lífsvilja. Í gegnum verkið tekst hann á við drauga fortíðarinnar sem og sambönd nútímans, en þó mest við eigin hugarheim sem er fullur af reiði, beiskju og eftirsjá, sem koma í veg fyrir að hann geti litið í eigin barm og haldið áfram að takast á við lífið.

Verkið snertir á þáttum eins og fjölskyldu, missi og fyrirgefningu um leið og það afhjúpar varnarleysi sálarinnar sem og óstöðugleika tilfinningalífsins. Engu að síður er það leitt áfram af undirbáru vonar og væntumþykju.

StepByStep leikhópurinn var stofnaður af ungu, vel menntuðu og metnaðarfullu leikhúsfólki sem hefur sett sér það markmið að bjóða áhorfandanum ávallt upp á fyrirtaks leikhúsreynslu. Listrænn stjórnandi leikhópsins er íslenski leikstjórinn og leikarinn, Vala Fannell.

Leikhópurinn markaði sér í upphafi þá stefnu að bjóða upp á ósvikið leikhús með því að spyrja djarfra spurninga um manneskjuna og lífið, hvers vegna mannskepnan hugsar og hegðar sér eins og hún gerir. Hver saga sem leikhópurinn sviðsetur er unnin af óslökkvandi forvitni og hún rannsökuð niður í kjölinn til að byggja heildarmynd sem hvetur áhorfandann til að hugsa út fyrir sinn hvunndagsramma.

Með hlutverkin í sýningunni fara Aron Trausti, Sigurður Hólm, Vala Fannell, Sindri Svan og Bragi Árnason

Eins og áður segir eru sýningarnar eru hluti af Crouch End Festival í London og verða sýndar í Hornsey Town Hall, sem hefur nýlega verið tekin í notkun sem listarsetur. Dagsetningarnar eru:

11. júní  kl. 19:30

12. júní  kl. 21:00

13. júní  kl. 19:30