Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga var slitið að Húsabakka í Svarfaðardal í tíunda sinn s.l. sunnudag. Þær skólastýrur Gunnhildur Sigurðardóttir og Sigríður Karlsdóttir létu af störfum við það tækifæri eftir að hafa stýrt skólanum öll þessi 10 ár.
Voru þær kvaddar og þeim þakkað frábært sjálfboðaliðastarf fyrir skólann, því víst er að án þeirra sívakandi umhyggju væri skólinn ekki það sem hann er í dag. Í lokahófinu á laugardagskvöldið voru þeim afhent gjafabréf upp á námskeið að eigin vali á næstu árum í skólanum.
Dalvíkurbyggð hefur styrkt skólann frá upphafi og var Svanfríður Jónasdóttir, nýkjörin bæjarstjóri, gestur skólans í lokahófinu. Þar voru einnig rúmlega 20 af eldri nemendum skólans en nemendafjöldi frá upphafi er kominn yfir 500 manns.
Skólann sóttu í þetta sinn 33 nemendur. 6 sóttu framhaldsnámskeið í leikstjórn hjá Sigrúnu Valbergsdóttur, en þetta var í áttunda sinn sem hún leiðbeindi leikstjóranemum skólans. 11 sóttu sérnámskeið í leiklist hjá Steinunni Knútsdóttur og 16 sóttu sérnámskeið í leiklist hjá Ágústu Skúladóttur. Útskrifuðust allir með sóma og fengu við skólaslit afhent viðurkenningarskjöl og merki skólans.
Efri myndin sýnir þær Gunnhildi og Sirrý slíta skólanum í 10. sinn en sú neðri er af þeim ásamt öllum kennurum og nemendum skólans.