Föstudaginn 29. september n.k. frumsýnir Þjóðleikhúsið Sitji guðs englar eftir Guðrúnu Helgadóttur í leikgerð Illuga Jökulssonar og leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar.

Leikgerðin er byggð á þremur bókum Guðrúnar, Sitji guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni. Leikritið gerist í íslensku sjávarþorpi í síðari heimsstyrjöldinni og miðpunkturinn er barnmörg stórfjölskylda. Gegnum litríkt líf hennar kynnast áhorfendur tíðaranda stríðsáranna, átakanlegum atburðum og skrautlegum uppákomum. Þetta er leiksýning fyrir alla fjölskylduna sem vekur upp áleitnar spurningar um tengsl fortíðar og nútíðar. Verk Guðrúnar Helgadóttur eru þjóðinni hjartfólgin og bækur hennar hafa verið lesnar upp til agna af mörgum kynslóðum. Hún er hagvön á leiksviði því leikrit hennar Óvitar, sem frumflutt var í Þjóðleikhúsinu árið 1979 og aftur sýnt árið 1989, naut mikilla vinsælda og einnig leiksýning byggð á sögunum um tvíburana Jón Odd og Jón Bjarna, sem frumsýnd var í Þjóðleikhúsinu árið 2002.

sitjiguds2.jpgTónlist setur ríkan svip á sýninguna og er það Jóhann G. Jóhannsson sem hefur samið hana við söngtexta Þórarins Eldjárns.

Brynhildur Guðjónsdóttir leikur stúlkuna Heiðu, Baldur Trausti Hreinsson og Þórunn Erna Clausen leika foreldra hennar og Sigurður Skúlason og Ragnheiður Steindórsdóttir leika afa og ömmu. Aðrir leikarar í sýningunni eru Darri Ingólfsson, Hjálmar Hjálmarsson, Kjartan Guðjónsson, Kristján Franklín Magnús, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir og Nanna Kristín Magnúsdóttir.

Fjórtán börn á aldrinum 7-13 ára leika í sýningunni, þau Árni Beinteinn Árnason, Aron Brink, Ásgrímur Gunnarsson, Guðbrandur Loki Rúnarsson, Guðjón Trausti Skúlason, Guðmundur Steinn Gíslason, Gunnar Ólafsson, Helga Sigrún Hermannsdóttir, Hlynur Þór Pétursson, Kristbjörg María Jensdóttir, Mikael Emil Kaaber, Rafnhildur Rósa Atladóttir, Tanja Líf Traustadóttir og Þorbjörg Erna Mímisdóttir.

Hljóðfæraleikarar í sýningunni eru Jóhann G. Jóhannsson, Sigurður Flosason/Peter Tompkins og Óskar Guðjónsson/Ólafur Jónsson.  

Leikgervi og hárkollugerð eru í höndum Árdísar Bjarnþórsdóttur og Guðrún Erla Sigurbjarnadóttir sér um hár. Lýsingu annaðist Hörður Ágústsson. Búningar eru eftir Þórunni Elísabetu Sveinsdóttur og leikmynd gerir Frosti Friðriksson. Leikstjóri er sem fyrr segir Sigurður Sigurjónsson.