Föstudagskvöldið 14. nóvember heldur belgíski dansarinn Mirte Bogaert sýningu á nýju verki í Frystiklefanum á Rifi. Mirte hefur haft aðsetur í klefanum frá því í byrjun október og unnið ötullega að þessu nýja dansverki sem sækir innblástur sinn í náttúruna og veðrið á Snæfellsnesinu.

Þetta er í fyrsta skipti sem listamaður hefur aðsetur í klefanum og þótti henni einkar ánægjulegt að dveljast á Rifi. Hún sótti meðal annars prjónanámskeið og gerði sitt besta til að læra íslensku með góðri hjálp Kötu í Rifssaumi.

Sýning Mirte hefst klukkan 20:00 og stendur yfir í rúmar þrátíu mínútur.  Eins og fyrri daginn eru það frjáls framlög sem gilda sem miðaverð á sýninguna og eru heimamenn hvattir til að bregða undir sig betri fætinum og taka þátt í þessum skemmtilega viðburði.