Fimmtudag 1. febrúar verður haldinn opinn samlestur á Gretti á Stóra sviði Borgarleikhússins. Lesturinn hefst klukkan 10.00
 
Þetta er sögulegur atburður þar sem einvala lið leikara sameinar krafta sína í þessum frábæra söngleik undir styrkri stjórn Rúnas Freys Gíslasonar.

Meðfylgjandi mynd er af Sigurveigu Jónsdóttur og Jóni Sigurbjörnssyni í hlutverkum sínum í uppfærslu verksins í Austurbæjarbíói 1980. Söngleikur sem fjallar um hinn lánlausa Gretti. Hann er skotspænir félaga sinna vegna þess hversu einfaldur hann er og hversu mikil bleyða hann er. Þá er hann uppgötvaður og fær hlutverk í sjónvarpsseríu byggða á Íslendingasögunni um Gretti Sterka. Hann nær skjótum frama. Hann þarf að takast á við sjónvarpsdrauginn Glám sem gerir honum lífið leitt eins og í Sögunni fornu. Grettir sér Glám allstaðar, í linsum sjónvarpsvélanna og í sviðsljósunum. Að lokum dregur Glámur hann til geðveiki og síðast dauða.

Halldór Gylfason sem leikur Gretti, Magnús Jónsson sem leikur Glám og Arnbjörg Hlíf Valsdóttir sem leikur Gullauga munu taka lagið, módel af sviðsmyndinni verður til sýnis og gömlu kempurnar Egill, Þórarinn og Ólafur Haukur munu heiðra viðstadda með nærveru sinni.