Kómedíuleikhúsið á Ísafirði frumsýnir nýtt íslenskt jólaleikrit laugardaginn 17. nóvember í Tjöruhúsinu. Leikurinn heitir Jólasveinar Grýlusynir og er einleikur einsog flest verk Kómedíuleikhússins. Höfundar eru þau Elfar Loga Hannesson og Soffía Vagnsdóttur. Hér er á ferðinni leikur um gömlu íslensku jólasveinanna og ýmsum spurningum reynt að svara um þessa skrítnu sveina. Hvers vegna er Stúfur minnstur jólasveinanna? Af hverju er Stekkjastaur svona hár til hnésins? Var fjórtándi jólasveinninn til? Eru Askasleikir og Bjúgnakrækir tvíburar? Allt þetta og miklu fleira fáum við að vita í sýningunni um Grýlusynina.

Inn í ævintýrið fléttast allt annað ævintýri um unglingspilt sem er að leita að kúnni Búkollu sem hefur strokið einn ganginn enn. En þessi fræga kú er einmitt þekkt fyrir þessa áráttu sína að vilja hlaupast á brott frá eigendum sínum. Leit piltsins að kúnni leiðir hann hátt uppí fjöll þar sem ýmsar furðuverur búa. Mikil tónlist er í sýningunni en allir sveinarnir þrettán taka lagið. Jólasveinar Grýlusynir verður á fjölunum í Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði og hefur það nú tekið á sig jólalega mynd og er sannkallað ævintýrahús jólasveinanna.

Fjölmargir vestfirskir listamenn koma að sýningunni. Hönnuður jólasveinanna, sem eru bæði brúður og grímur, er Marsibil G. Kristjánsdóttir og hannar hún auk þess leikmynd í samstarfi við Kristján Gunnarsson. Leikari er Elfar Logi Hannesson, höfundur tónlistar er Hrólfur Vagnsson, búningahönnuður er Alda Veiga Sigurðardóttir, ljósahönnuður er Jóhann Daníel Daníelsson og Soffía Vagnsdóttir leikstýrir. Jólaleikurinn Jólasveinar Grýlusynir verður sýndur allar helgar í nóvember og desember kl.14.00. Einnig verða sýningar milli jóla og nýárs.

Kómedíuleikhúsið á Ísafirði var stofnað árið 1997 og hefur starfað af miklum krafti á þeim áratug sem liðin er. Síðan 2001 hefur leikhúsið helgað sig einleikjaforminu og sett á svið fjölmarga vinsæla leiki má þar nefna verðlaunaleikinn Gísli Súrsson sem hefur tvívegis verið verðlaunaður á erlendum leiklistarhátíðum. Aðrir einleikir sem Kómedía hefur sett á svið eru m.a. Muggur, Steinn Steinarr, Dimmalimm og Skrímsli. Hinsvegar gerðust þau kómísku tíðindi nú í byrjun nóvember að leikhúsið setti á svið tvíleikinn Ég bið að heilsa með þeim Elfar Loga Hannessyni, leikara, og Þresti Jóhannessyni, tónlistarmanni. Hér er á ferðinni leikur sem er settur á svið í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar og flytja þeir félagar ljóð Listaskáldsins góða í leik, tali og tónum. Kómedíuleikhúsið stendur einnig fyrir Act alone leiklistarhátíðinni sem er haldin árlega yfir sumartímann. Act alone er alþjóðleg hátíð sem er helguð einleikjaforminu. Hátíðin verður haldin í fimmta sinn á næsta ári dagana 2. – 6. júlý á Ísafirði. Rétt er að geta þess að Act alone er eina árlega leiklistarhátíðin á Íslandi og aðgangur að hátíðinni er ókeypis. Act alone hefur eigin heimasíðu www.actalone.net þar sem má sjá dagskrá hátíðarinnar auk ýmiskonar fróðleiks um einleikjaformið s.s. greinar um þekkta einleikara og viðtöl við einleikara. Kómedíuleikhúsið er fyrsta og eina atvinnuleikhúsið á Vestfjörðum og er heimasíða leikhússins www.komedia.is

 {mos_fb_discuss:2}