Sviðslistahópurinn Flækja mæðist í mörgu þessa dagana. Á mánudag hefjast námskeið á vegum hópsins og um næstu helgi verður leiksýningin Það og Hvað sýnd á Dönskum dögum í Stykkishólmi og Blómstrandi dögum í Hveragerði. Sunnudaginn 18. ágúst verður hópurinn með fatamarkað og fjör í Borgarnesi þar sem m.a. verða til sölu glænýir ÞAÐ OG HVAÐ bolir fyrir börn!
Leikritið Það og Hvað er skrifað af þeim Sigríði og Júlíönu og fjallar um samnefndar persónur sem lenda í ýmsum ævintýrum sem fá þær til að velta fyrir sér ástinni, vináttunni, lífinu og tilverunni. Persónurnar fá börnin til þess að hjálpa sér að leita svara við þeim spurningum og vangaveltum sem upp koma og tjá einnig hugmyndir sínar og vangaveltur með söng og dansi. Persónurnar klæðast litríkum og skemmtilegum búningum sem fanga athygli yngstu áhorfenda.
Aðalmarkmið verkefnisins er að skapa spennandi og þýðingarmikið leikhús fyrir börn sem fær þau til að velta fyrir sér lífinu og tilverunni á uppbyggilegan hátt og að auka aðgengi ungra barna um allt land að leikhúsi. Verkefnið verður á ferð um landið í sumar þar sem persónurnar heimsækja hina ýmsu leikskóla og hátíðir.
Sýningin er hugljúf, fyndin og skemmtileg og sérstaklega aðgengileg fyrir börn á leikskólaaldri.