Reykjavík Fringe Festival mun verða haldin í fyrsta sinn á Íslandi dagana 4.-8. júlí. Fjöllistahátíðin býður m.a. upp á leiklist, dans, uppistand, spuna, kabarett, sögustundir, myndlistarsýningar, kvikmyndir, fyrirlestra, námskeið, drag, innsetningar, tónlist, ljóðalestra o.fl.
Meira en 50 listamenn/hópar taka þátt og halda yfir 130 sýningar á 5 dögum á 11 staðsetningum víðs vegar um miðborg Reykjavíkur.
Opnunarpartý Reykjavík Fringe verður haldið á Hlemmi Square sunnudagskvöldið 1. júlí frá kl 20:00. Sérstakt forsýningarkvöld verður svo haldið þriðjudaginn 3. júlí kl 20:30 í Tjarnarbíó þar sem flestallir listamenn hátíðinnar munu kynna atriðin sem þau eru með á 2 mínútum. Aðgangur er ókeypis á þessa þriðjudags veislu.
Verkin sem verða á Reykjavík Fringe koma hvaðanæva að og eru m.a. frá Íslandi, Bandaríkjunum, Svíþjóð, Þýskalandi, Bretlandi, Brasilíu, Kanada, Ástralíu og Ísrael. Flestar sýningar fara fram á ensku, en einnig eru sýningar á íslensku ásamt sýningum sem fara ekki fram á töluðu máli, s.s. myndlistarsýningar, innsetningar og dansverk.
Sem dæmi um verk má nefna spunasýningu Improv Iceland, eins dags tónlistarveislu sem fer fram á Dillon, fjölmargar uppistandssýningar, sérstaka dragsýningu Drag-súgs, ljóðaslamm keppni og dansverkið All the Sisters in Me. Kassinn er leikhúsverk í sýndarveruleika, Miss Mokki býður upp á námskeið fyrir byrjendur í burlesque, á Smut Slam segja áhorfendur sannar kynlífssögur á sviði, Dömur & herra verða með kabarett sýningu en umtalaðasta sýning hátíðarinnar er American Single þar sem leikkona fer á stefnumót við áhorfanda úr salnum.
Elísabet Jökulsdóttir stýrir leiklestri, kattagöngutúrar eru í boði, hægt er að hlýða á hljóðverkið Vættir sem krefst þess að þú mætir með þinn eigin síma eða skella sér í heimahús þar sem verðlaunasýningin Phone Whore fer fram fyrir takmarkaðan áhorfendafjölda.
Í lok hátíðar er svo hægt að ferðast aftur í tímann með að stíga inn í Rauða skáldahúsið.
Þetta er einungis brotabrot af því sem fer fram á Reykjavík Fringe Festival. Hægt er að nálgast fulla dagskrá á heimasíðu hátíðarinnar rvkfringe.is
Miðasala fer fram á Tix.is en passi fyrir alla hátíðina er á 9.900 kr. Einnig er hægt að kaupa miða á einstaka sýningar bæði á Tix og við hurð – sjá Facebook viðburð sýningar fyrir frekari upplýsingar um miða.
Styrktaraðilar hátíðarinnar eru Reykjavíkurborg, Hlemmur Square, Fisherman og Omnom.
Nánari og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu hátíðarinnar og á Facebook: