Á þriðja þúsund manns sóttu sýningar Þjóðleikhússins um helgina. Uppselt var á nánast allar sýningar, t.a.m. sáu tæplega 1000 manns Halldór í Hollywood á Stóra sviðinu. Sú nýbreytni hefur verið tekin upp í Þjóðleikhúsinu að sýna leiksýningar á verkefnaskrá leikhússins aðeins í takmarkaðan tíma, en sýna hins vegar þeim mun þéttar þann tíma sem þær eru í sýningu.
Fyrsta sýningin á Stóra sviðinu sem sýnd hefur verið með þessum hætti er Halldór í Hollywood eftir Ólaf Hauk Símonarson. Sú sýning hefur verið sýnd að jafnaði þrjú til fjögur kvöld í viku, frá frumsýningu 14. október sl. Sýningum lýkur fyrir jól og Halldór í Hollywood víkur fyrir nýrri sýningu, Túskildingsóperunni eftir Kurt Weill og Bertholt Brecht.
Þetta sýningarfyrirkomulag er vel þekkt í evrópskum leikhúsum, enda viðurkennt að mun hægara er fyrir sviðslistamenn að ná öruggum tökum á hlutverkum sínum þegar sýnt er ört en þegar sýningar eru með löngu millibili. Ávinningurinn af þessu nýja sýningarfyrirkomulagi er umtalsverður, ekki einungis í listrænu tilliti heldur einnig rekstrarlegu, meðal annars vegna þess að ekki þarf að skipta um leikmyndir um nætur og helgar, og kostnaður við sýningar er minni þegar sýnt er þétt í afmarkaðan tíma. Með hinu nýja sýningarfyrirkomulagi skapast aukið fjárhagslegt svigrúm, sem leikhúsið getur nýtt til annarra þarfa.
Við vonum svo sannarlega að leikhúsgestir taki vel í þetta nýja fyrirkomulag og dragi það ekki að tryggja sér sæti í Þjóðleikhúsinu. Að öðrum kosti gætu þeir átt á hættu að missa af áhugaverðum sýningum.
Stöndum saman um að gera gott leikhús betra.
Þjóðleikhúsið – leikhúsið þitt.